Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Ég styð Ingibjörgu Sólrúnu sem næsta formann Samfylkingarinnar
Þriðjudagur 26. apríl 2005 kl. 09:45

Ég styð Ingibjörgu Sólrúnu sem næsta formann Samfylkingarinnar

Það hefur ekki farið fram hjá neinum sem fylgist með þjóðmálum að nú er komið að formannskjöri í Samfylkingunni. Í framboði eru tveir hæfileikaríkir frambjóðendur sem báðir hafa mikla reynslu á hinu pólitíska sviði. Það er hlutverk flokksbundins Samfylkingarfólks að velja formann með póstkosningu í samræmi við lög flokksins og enginn annar flokkur á Íslandi viðhefur svo lýðræðislega aðferð við val á fólki til forystu.

Barátta formannsefnanna hefur að mestu verið málefnaleg þó einstökum stuðningsmönnum hafi kannski hlaupið heldur mikið kapp í kinn, í stuðningi sínum við sinn mann eða konu og vonandi tekst að halda baráttunni á málefnalegum nótum  allt til enda hennar.

Ég hef tekið ákvörðun um að kjósa Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sem næsta formann Samfylkingarinnar og tel að það muni fleyta Samfylkingunni lengra í næstu kosningum ef hún verður formaður flokksins.  Ég tel einnig að reynsla hennar við að leiða farsælt meirihlutastarf í Reykjavík muni gagnast okkur vel, þegar kemur að því að taka við stjórnartaumunum eftir næstu kosningar. 

Það hefur vakið athygli mína hversu mjög andstæðingar Samfylkingarinnar hafa hert áróðursstríð sitt gegn Ingibjörgu eftir því sem formannskjörið hefur nálgast og mér hefur þótt nóg um hversu hart þeir hafa gengið fram í þeim ásetningi sínum að hafa áhrif á kjör sem einungis Samfylkingarfólk á að taka þátt í. Við sem höfum kosningarétt í þessu formannskjöri megum ekki láta áróður andstæðinga okkar í pólitík rugla okkur í ríminu, heldur verðum að velja formann með framtíðarhagsmuni jafnaðarmanna í huga.

Ingibjörg Sólrún hefur leitt starf  Framtíðarhóps Samfylkingarinnar og þar fer fram merkileg tilraun til að sem flestir geti komið að stefnumótun flokksins til framtíðar. Það hefur vakið athygli mína að þrátt fyrir að hópurinn hafi minni tíma en áður var ætlað til að klára sitt starf, vegna flýtingar á landsfundi, þá hefur hún ekki látið neinn bilbug á sér finna og tekist að laða fram mikla og framsækna vinnu hjá þeim flokksmönnum sem að starfinu koma á þessu stigi þannig að takast megi að standa við þá ætlan að kynna áherslur til framtíðar á landsfundinum í maí.

Reynsla mín af samstarfi við Ingibjörgu í  vinnu Framtíðarhópsins hefur enn styrkt mig í þeirri trú að í henni fari framtíðarleiðtogi okkar jafnaðarmanna. Ég tel að nú sé komið að því að gera hana aftur að því forsætisráðherraefni sem hún áður var, með því að gera hana að formanni Samfylkingarinnar. Að endingu vil ég hvetja alla þá sem hafa kosningarétt í formannskjörinu til að nýta þann rétt sinn og vona að niðurstaðan verði sem eindregnust þannig að nýkjörinn formaður hafi sem mestan stuðning flokksmanna til starfans.

Jón Gunnarsson
alþingismaður Samfylkingar í Suðurkjördæmi
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024