Ég! Hvað með mig?
Í síðustu Víkurfréttum skrifaði Gunnar Halldór Gunnarsson grein um hversu mikilvægur sjálfboðaliðinn er í samfélaginu okkar, og hversu dýrmætt það er á nýju ári að hverfa frá græðgisvæðingunni og snúa okkur að umhyggjuvæðingunni, þar sem við leyfum okkur að hugsa um aðra, leyfum okkur að gefa til annarra, en ekki síður að styðja við allt gott starf sem mest við getum með uppörvandi orðum og gerðum. Hugsum um og tölum saman um hvernig við getum stutt við og styrkt þetta bæjarsamfélag og komið þessari jákvæðu hugsun áleiðis, þessari hugsun að allir geti lagt sitt af mörkum til að skapa þann bæ sem við viljum búa í og það samfélag sem við viljum lifa og hrærast í.
Allur félagsskapur sem tengir einstaklinga saman í hóp með sameiginlega hugsjón og sameiginleg markmið er einn af hornsteinum samfélagsins. Þessir hornsteinar mynda síðan þann grunn sem við byggjum bæinn okkar á. Bærinn okkar og samfélagið er ekki bara þeir sem stjórna opinberlega, hann er ekki bara þeir sem ákveða og fyrirskipa, bærinn okkar er líka það sem við leggjum af mörkum til hans, hvert og eitt okkar.
Eitt af þessum félögum hér í bæ er Kvennasveitin Dagbjörg.
Það var fyrir 6 árum að nokkrar konur sem höfðu þá hugsjón og löngun að stuðla að öryggi íbúanna í Reykjanesbæ, stórra sem smárra, fóru af stað og í samstarfi við Björgunarsveitina Suðurnes og með stuðningi Slysavarnasveitarinnar Landsbjargar var Kvennasveitin Dagbjörg sett á laggirnar. Helstu markmið hennar eru að stuðla að betra öryggi bæjarbúa allra, hvort sem það eru börnin okkar, unglingarnir, foreldrarnir eða aldraðir. Þetta gerum við á ýmsan máta og er þátttaka félagsmanna í þessu starfi grunnurinn á bak við árangurinn og eitt af því sem gerir hvern félagsskap þess virði að vera meðlimur í.
Nú eru rúmlega 80 ár frá því að fyrsta kvennadeildin innan Slysavarnafélags Íslands, sem nú heitir Slysavarnafélagið Landsbjörg, var stofnuð en eins og flestir vita þá eru þessi samtök orðin ein stærstu félagasamtök sjálfboðaliða á landinu með öllum sínum kvennasveitum, björgunarsveitum og unglingadeildum. Af því tilefni verða kynningar um allt land á hinum ýmsu deildum innann SL þriðjudaginn 18. janúar nk. Þann dag býður Kvennasveitin Dagbjörg öllum bæjarbúum að koma í hús Björgunarsveitarinnar Suðurnes, Holtsgötu 51, klukkan 20:00 og kynna sér hvað það er sem þessi sveit stendur fyrir, hvað hún leggur til samfélagsins og hvernig þú getir gerst sjálfboðaliði í þessari sveit.
F.h. Kvennasveitarinnar Dagbjargar
Sólbjörg Gunnbjörnsdóttir.