Eftirlaunasjóður Reykjanesbæjar skilaði jákvæðri raunávöxtun tímabilið 2005-2009
Það er ánægjuleg niðurstaða eftir erfið ár í efnahagshruninu að Eftirlaunasjóður starfsmanna Reykjanesbæjar er í hópi þeirra sjóða sem minnst töpuðu í hruninu. Raunávöxtun sjóðsins hefur verið jákvæð síðustu 5 ár og einnig þegar skoðað er 10 ára tímabil. Skýringin er fólgin í varfærinni fjárfestingarstefnu stjórnar sem lagði áherslu á innlend verðbréf með ríkisábyrgð auk erlendra verðbréfa. Árin 2008 og 2009 voru milli 75-80% af eignasafninu eingöngu í innlendum verðbréfum með ríkisábyrgð. Óhjákvæmilega varð tapið nokkuð árin 2008 og 2009 ekki síst vegna eldri fjárfestinga sem komu lítið við fjárfestingum í uppsveiflunni og höfðu skilað arði um lengri tíma en hrundu árin 2008 og 2009.
Árin 2005-2009 var meðal raunávöxtun sjóðsins jákvæð um 3,7% og jákvæð um 2,6% síðustu 10 ár. Árin frá 2005 til 2009 er það tímabil sem nefnd um rekstur lífeyrissjóðanna í aðdraganda bankahrunsins fjallaði um og skilaði af sér áliti í sl. mánuði.
Raunávöxtun neikvæð um 3,3% árið 2008
Nánar tiltekið var raunávöxtun sjóðsins árið 2005 jákvæð um 7,5% og árið 2006 var hún jákvæð um 9,8%. Árið 2007 var hún jákvæð um 2,7% en neikvæð árið 2008 um 3,3%. Árið 2009 var hún aftur orðin jákvæð um 2,4%. Árið 2010 var raunávöxtun 3,39%.
Tap sjóðsins liggur í beinum afskriftum og niðurfærslum eða gengislækkunum bréfa árið 2008 en afleiðingarnar teygðu sig inn á árin 2009 og 2010 þótt raunávöxtun hafi verið jákvæð þau ár.
Það tap sem sjóðurinn varð fyrir á hrunárunum var tilkomið vegna gengislækkunar í innlendum hlutabréfasjóðum en heildartap þessara ára af hlutabréfasjóðunum nam 62 milljónum kr.
Þegar litið er til innlendra skuldabéfasjóða er samanlagt tap áranna 2008 og 2009 um 29 milljónir kr.
Eftirlaunasjóðurinn þurfti ekki að afskrifa neinar erlendar eignir á árunum 2008 og 2009.
Fjárfest í ríkistryggðum bréfum
Segja má að tekist hafi að afstýra miklu tapi með því að frá miðju ári 2007 var farið að losa verðbréf í bönkum og fyrirtækjum og kaupa þess í stað verðbréf frá ríkinu eða með ábyrgð þess.
Eignir Eftirlaunasjóðs Reykjanesbæjar hafa vaxið úr tæpum 683 milljónum árið 2005 í tæpa 3,1 milljarð kr. árið 2011. Mesti vöxtur eigna var á milli ára 2007 og 2008. Skýringin á því er að í lok árs 2007 tókst að ljúka uppgjöri Sparisjóðsins í Keflavík við sjóðinn en þær skuldbindingar námu nær 1,3 milljarði kr. Það tókst að afstýra miklu tapi á hrunárunum þótt óhjákvæmilega væri það nokkuð vegna taps á 10 ára gömlum fjárfestingum sem höfðu skilað okkur arði þar til þær hrundu árið 2008 og 2009. Hægt er að lesa nánar um úttekt umræddrar nefndar um Eftirlaunasjóð Reykjanesbæjar í bindi 2, bls.71-77.
Meðfylgjandi er yfirlit yfir eignir sjóðsins á árunum 2005 til 2011.
Með bestu kveðjum,
Árni Sigfússon, formaður stjórnar Eftirlaunasjóðs starfsmanna Reykjanesbæjar.