Eftir heimsfaraldur kemur ...
Nú þegar loksins sér fyrir endann á heimsfaraldrinum Covid-19 sem hefur herjað á heimsbyggðina í rúm tvö ár þá tekur við sú áskorun að koma lífinu aftur í þann farveg sem var. Það er margt sem þarf að vinda ofan af í velferðarmálum barna og sérstaklega eftir undanfarin tvö ár. Þessir tímar juku á félagslega einangrun hjá mörgum okkar hvort sem um ræðir börn, ungmenni eða fullorðna. Fólk gerði sitt besta til að komast í gegnum þetta tímabil, margir með börnin heima og í fjarvinnu á sama tíma. Skólastarf sem og íþrótta- og tómstundastarf tók miklum breytingum um langt skeið sem óneitanlega hafði áhrif á mörg börn og ungmenni.
Álag á barnaverndarstarfsmenn í Reykjanesbæ hefur verið mikið undanfarin ár. Síðastliðin tvö ár í Covid hefur tilkynningum til barnaverndar fjölgað jafnt og þétt og þá sérstaklega er viðkemur heimilisofbeldi og áhættuhegðun barna og miklar áskoranir hafa legið fyrir starfsmönnum barnaverndar í kjölfarið.
Á þessu kjörtímabili fór meirihluti í bæjarstjórn sem skipuð er af Samfylkingu og óháðum, Framsókn og Beinni leið í allsherjar endurskipulagningu á velferðarsviði þar sem gerð var úttekt á sviðinu, ekki einungis til að bæta vinnuumhverfi starfsmanna, heldur líka til að bæta þjónustuna við íbúa og færa hana nær bæjarbúum. Unnið er með það að leiðarljósi að snemmtækri íhlutun sé beitt eins fljótt og auðið er til að koma í veg fyrir að mál vindi upp á sig. Barnaverndarnefnd vann hörðum höndum að því að aukið yrði við stöðugildi í barnavernd og niðurstaðan varð aukning um tvö stöðugildi þar sem verkefnin eru ærin. Metnaðarfullt verklag er við lýði sem vinnur þvert á fræðslusvið og velferðarsvið með það að markmiði að beita snemmtækri íhlutun sem og veita heildstæða og góða þjónustu til barna og fjölskyldna þeirra í bænum okkar.
Díana Hilmarsdóttir, aðalmaður í barnaverndarnefnd og bæjarfulltrúi Framsóknar.
Sigurrós Antonsdóttir, aðalmaður í barnaverndarnefnd og varabæjarfulltrúi Samfylkingar.