Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Eflum íþróttastarf – það eflir okkur
Laugardagur 26. janúar 2013 kl. 13:00

Eflum íþróttastarf – það eflir okkur

Frá barnsaldri hafa íþróttir átt stóran þátt í lífi mínu.  Ég átti því láni að fagna að stunda knattspyrnu, handknattleik og körfubolta á mínum yngri árum og síðar golf.  Alls staðar hef ég séð hversu góð áhrif íþróttir hafa á iðkendurna, jafnt þá sem sækjast aðallega eftir félagsskap og hreyfingu sem og þá sem leggja aðaláherslu á keppni.  Auðvitað er keppni   stór þáttur í íþróttalífi, bæði fyrir þá sem stunda þær og  þá er fylgjast með kappleikjum og við Íslendingar eigum því láni að fagna að eiga keppnismenn í fremstu röð á sviði íþrótta, að meðtöldum íþróttum hugans, skák og bridge.

Enginn þarf að efast um mikilvægi íþrótta fyrir heilsufarslegar forvarnir, það styðja vísindalegar rannsóknir. Þar er í senn skírskotað  til varna gegn notkun  hvers konar vímuefna og hreyfingarinnar sem slíkrar, en ekki síst til þeirra jákvæðu uppeldislegu og félagslegu áhrifa sem iðkun íþrótta hefur á einstaklingana.

„Ísland er ekki lítið land, það er stórasta land í heimi,“ er haft eftir Dorrit Moussaieff forsetafrú í tilefni af silfurverðlaunum handknattleiksliðs okkar á Olympíuleikunum í Peking.  Svo sannarlega var þetta mikla afrek  ekkert einsdæmi meðal okkur Íslendinga.  Afrekalisti þessarar fámennu þjóðar er ótrúlega langur og á flestum sviðum íþrótta. Til dæmis eigum við fleiri atvinnumenn í sterkustu deildum Evrópu í  knattspyrnu og handknattleik en aðrar þjóðir að svipuðum fjölda svo ekki sé talað um ef miðað er við höfðatölu, þar erum við trúlega fremstir meðal þjóða. Þetta eru staðreyndir sem hafa í sjálfu sér ekkert með oflátungshátt eða þjóðrembu að gera.

En hver er ástæðan? Á þessu er ekki einhlít skýring. Þróun mannsins er í grunninn samkeppni milli einstaklinga og ef marka má fornsögurnar voru formæður okkar og forfeður að mörgu leyti kappsamt og íþróttasinnað atgervisfólk. Sé það rétt hafa kynslóðir Íslendinga  síðan notið góðs af þessum erfðum hver fram af annarri.  Einnig vitum við að það var ekki heiglum hent að lifa af í þessu harðbýla landi á öldum áður þegar fimbulkuldi og náttúruhamfarir ógnuðu tilvist þjóðarinnar. Erfið lífsbaráttan útheimti bæði líkamsþrek og baráttuanda sem varð samofinn þjóðarmenningunni. Þannig mætti líka álykta að iðkun íþrótta geti að einhverju leyti verið þáttur í því að viðhalda því atgervi sem þarf til að lifa af.

En það er til önnur og nærtækari skýring á árangri okkar í íþróttum. Í þessu stóra en fámenna  landi eru stundaðar íþróttir jafnt í dreifbýlinu úti á landi sem þéttbýlinu hér á suðvesturhorni landsins sem er í raun strjálbýlt í samanburði við þéttbýliskjarna erlendis.  Í hverju plássi hafa menn metnað til þess að stilla upp liðum í knattspyrnu eða öðrum boltaíþróttum. Þá hefur bardaga- og kraftakeppni löngum átt fjölda þátttakenda sem aðdáenda að glímunni ógleymdri. Strjálbýlið hefur þannig gefið fleirum tækifæri til að þroskast á sviði keppnisíþrótta en ella væri.

Af framangreindu er ljóst að metnaður og keppnisskap forfeðranna í íþróttum sem lýst er í Íslendingasögum dafnar vel með þjóðinni enn þann dag í dag. Hins vegar er nauðsynlegt að íþrótta- og tómstundafélög setji sér skýra uppeldisstefnu sem lýtur m.a. að því að gefa öllum tækifæri til að taka þátt.  Þá þarf framboð íþrótta og tómstunda að vera sem fjölbreyttast.  Til þess þarf að tryggja aðkomu menntaðra þjálfara og forystumanna í þessu starfi.  

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Við hér í Reykjanesbæ höfum ætíð átt afreksmenn í íþróttum í fremstu röð hér á Íslandi og sumir þeirra jafnframt getið sér góðan orðstír erlendis á því sviði. Við höfum byggt upp íþróttamannvirki og fullnægt þannig betur þörfum iðkenda og unnenda íþrótta en gerist víðast hvar annars staðar á landinu.  En nýtast mannvirkin  nógu vel? Skila þau þeim arði sem skyldi? Við verðum að fylgja þessum fjárfestingum eftir með því að veita innra starfi íþrótta- og tómstundafélaganna þann fjárhagslega stuðning sem þarf til að allir á skólaskyldualdri sem vilja, fái notið þessa starfs.  Það er sú leið sem þarf að fara nú til að virkja sem flesta til þátttöku, bæði unga sem aldna, og auka þannig velferð íbúanna.

Um leið og ég þakka öllum þeim sem hafa lagt íþróttunum lið og þá sérstaklega sjálfboðaliðum sem eru burðarásar félaganna, óska ég íbúum Reykjanesbæjar gæfu og velfarnaðar á nýbyrjuðu ári.

Gunnar Þórarinsson