Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Eflum forvarnir
Miðvikudagur 2. maí 2018 kl. 13:56

Eflum forvarnir

Á síðastliðnu kjörtímabili hefur nokkrum forvarnarverkefnum verið hleypt af stokkunum í Reykjanesbæ. Má t.d. nefna Heilsueflandi samfélag og verkefni er varðar fjölþætta heilsurækt fyrir eldri aldurshópa 65+, ásamt því að forvarnir eru samtvinnaðar öllu því starfi sem fram fer í skólum, íþróttum og tómstundum barna.
Börnin eru framtíðin og það er ábyrgð okkar sem samfélag að hlúa vel að börnunum og styðja við þau á þann hátt að þau verði hamingjusamir og heilbrigðir einstaklingar. Því miður er raunin sú að við erum allt of oft að bregðast við aðstæðum eða ástandi sem við teljum skaðandi einstaklingum. Ég tel þetta eiga við á öllum stigum samfélagsins, ekki bara hvað varðar börnin okkar heldur líka í mun víðtækara samhengi. Í raun má segja að í hugum margra er auðveldara að réttlæta að setja fjármagn í inngrip við skaðandi hegðun í stað þess að setja fjármagn í að fyrirbyggja eða minnka líkur á að slæmar aðstæður verði að veruleika.

Forvarnir eru gífurlega mikilvægar í öllum samfélögum og rannsóknir sýna að þær hafa vissulega borið árangur í Reykjanesbæ þegar kemur að hvers kyns neyslu ungmenna. Þó tel ég að forvarnir megi efla enn frekar því rannsóknir hafa líka sýnt að andleg líðan barna okkar er ekki nægilega góð. Þó er andleg heilsa ungmenna aðeins einn angi og forvarnir og forverkandi aðgerðir ættu að vera unnar með tilliti til líkamlegrar og andlegrar heilsu allra íbúa, öryggi og félagslegrar heilsu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Mín sannfæring er að við þurfum að hugsa forvarnir til lengri tíma og vinna að mun markvissari forverkandi aðgerðum sem minnka líkur á áhættuhegðun einstaklinga. Það forðar ekki aðeins fólki frá skaðlegum aðstæðum heldur sparar það samfélaginu mikla fjármuni til lengri tíma. Það eru hagsmunir samfélagsins í heild að byrgja brunninn. Ef Bein leið fær áframhaldandi traust til að starfa fyrir íbúa Reykjanesbæjar í bæjarstjórn, þá munum við beita okkur fyrir því að efla enn frekar forvarnir, t.d. með ráðningu forvarnarfulltrúa sem myndi styðja við og efla það góða starf sem þegar er unnið í bænum.

Helga María Finnbjörnsdóttir, varabæjarfulltrúi og í 5. sæti hjá Beinni leið.