Ef við leggjumst öll á eitt þá getum við breytt!
– Eysteinn Eyjólfsson skrifar.
Þessa dagana berum við frambjóðendur S-lista Samfylkingar og óháðra stefnumiðin okkar í hvert hús í Reykjanesbæ en þau má einnig nálgast á xsreykjanesbaer.is og fræðast nánar um í kosningamiðstöðinni okkar að Hafnargötu 25 – heitt á könnunni og allir velkomnir.
Við bjóðum bæjarbúum nýja sýn, viljum móta samfélag grundvallað á jöfnuði, lýðræði, ábyrgð og gegnsæi með fjölskylduna í fyrirrúmi og við munum stjórna bænum á opnari og ábyrgari hátt en nú er gert. Stefnumiðin hvíla á fjórum grunnstoðum; lýðræði, atvinnu, fjölskyldunni og umhverfinu.
Ný lýðræðissýn
Gerum stjórnsýslu bæjarins skilvirkari, opnari og gegnsærri. Íbúar Reykjanesbæjar eiga rétt á að vera upplýstir um tengsl og hagsmuni kjörinna fulltrúa og um stöðu bæjarins. Auðveldum aðgengi að upplýsingum og gerum bæjarbúum auðveldara að taka þátt í umræðunni, krefjast svara og atkvæðagreiðslna um mikilvæg mál. Stjórnum bænum saman.
Ný sýn í atvinnumálum
Setjum bænum okkar nýja og fjölbreyttari sýn í atvinnumálum sem virkjar mannauð og sköpunarkraft bæjarbúa til að skapa fleiri vel launuð og fjölbreytt störf. Nýtum sérstöðu okkar og styrkleika í ríkari mæli og á vistvænni forsendum en nú er gert. Eflum og styrkjum nýsköpun, skapandi greinar, ferðaþjónustu og minni og meðalstór fyrirtæki. Breytum saman áherslum í atvinnumálum.
Ný forgangsröðun fyrir fjölskyldur
Breytum forgangsröðun í bænum okkar og gerum hag fjölskyldna vænni og með því bæinn okkar betri. Verjum fjölskyldurnar á erfiðum tímum og tryggjum öllum börnum aðkomu að íþrótta-, menningar- og tómstundastarfi með því t.d. að þrefalda hvatagreiðslur. Eflum og styðjum frábært starf sem unnið er á öllum skólastigum og fjölskyldu- og félagsþjónustu Reykjanesbæjar. Skiljum engan útundan!
Ný sýn í umhverfismálum
Breytum umhverfisáherslum í bænum okkar og gerum hann vistvænni. Þéttum byggð í okkar langa bæ, sinnum gleymdum svæðum og fjölgum göngu- og hjólastígum innanbæjar og við önnur sveitarfélög. Setjum Reykjanesbæ metnaðarfulla umhverfisstefnu og auðveldum íbúum sorpflokkun og endurvinnslu. Tökum umhverfisvæna skrefið saman inn í 21. öldina.
Til þjónustu reiðubúinn
Breytingarandi er í loftinu í Reykjanesbæ – ef við leggjumst öll á eitt þá getum við breytt! Ég er í baráttusæti S-listans samkvæmt síðustu skoðanakönnun, kominn með fjögurra ára reynslu í bæjarstjórn, brimafullur af metnaði fyrir hönd bæjarins okkar og til þjónustu reiðubúinn.
Við verðum að breyta áherslum og búa til samfélag þar sem öllum bjóðast jöfn tækifæri. Reka bæinn okkar af ábyrgð, nýta tækifærin af skynsemi og skila bænum betri til barnanna okkar. Framtíðin er núna.
Eysteinn Eyjólfsson
3. sæti S-lista Samfylkingar og óháðra