Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Draumar eiga að rætast
Föstudagur 24. apríl 2009 kl. 10:34

Draumar eiga að rætast


Ágæti kjósandi.

Á laugardaginn næstkomandi, 25.apríl, fara fram að mínu mati mikilvægustu kosningar síðari tíma á Íslandi. Þann dag ákveðum við hvernig byggja skal upp þjóðina að nýju. Með því að leiðarljósi bið ég þig ágæti kjósandi að nýta kosningarrétt þinn, ekki láta þitt framlag til uppbyggingarinnar eftir liggja. Þetta er mikil alvara.

Stefna Sjálfstæðisflokksins er skýr. Fyrir þá sem ekki hafa kynnt sér málefnin vel nú þegar þá eru megin mál flokksins að bjarga heimilum og fyrirtækjum í landinu. Koma atvinnuvegum og bankakerfi í eðlilegt og nothæft horf. Ef þú ert ungur kjósandi gætir þú spurt núna: „Hvað gerir sú björgun fyrir mig, ég er bara í menntó?“. Það augljósa í svarinu er að þú ferð að sjálfsögðu með tímanum fyrir þínu eigin heimili og vonandi ef frelsi einstaklingsframtaksins verður varveitt þá mun jafnvel koma sá tími að þú stofnir þitt eigið fyrirtæki. Við eigum að nota sköpunargáfur okkar, skapa okkur hagstætt líferni með trausti frá stjórnendum landsins.

Blekkingar eru allt um kring og með þeim orðum ágæti kjósandi þá er mikilvægt að draga fram skýra mynd af því hvernig núverandi ríkisstjórnarflokkar munu starfa áfram ef þeir fá fylgi. Skýrasta myndin er sú að þeir geta hreinlega ekki starfað saman. Málið er svo einfalt að þeir blekkja sjálfan sig einungis í þeirri von um að halda völdum og hafa það fínt í leðurstólunum á ríkisstjórnarfundum.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, forystukona okkar Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi hefur áður lýst sínu  áliti á núverandi ríkisstjórn, sem hún kallar „Með og á móti ríkisstjórnin”. Þetta álit hennar hefur svo sannarlega orðið að staðreynd málsins í kosningabaráttunni, þetta ættu allir kjósendur að sjá sem fylgst hafa með borgarafundum og fréttum.  

Eftir borgarafund Reykjavíkurkjördæmis suður í Ríkissjónvarpinu miðvikudaginn 22. apríl kom í ljós hvernig ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri Grænna yrði eftir kosningar næðu þeir saman.  Sjálfur Iðnaðarráðherrann kom með skýr markmið nýrrar ríkisstjórnar undir formerkjunum; Já, nei, já, nei, já og loksins nei.  Ríkisstjórn sem gæti með engu móti tekið hreina afstöðu til mikilvægra málefna heldur tekið afstöðu sem hentar vel á hverjum tíma fyrir sig. Ég treysti ekki þannig ríkisstjórn, það er staðreynd.

Vinstri hreyfingin grænt framboð ber ekki hagsmuni okkar Suðurnesjabúa fyrir brjósti. Stefna þeirra er skýr, ekkert álver í Helguvík og þar með tapast hundruði starfa. Alvarleikinn í þessu máli er svo gríðarlegur að óhætt er að spyrja hvort það sé stefna Vinstri Grænna að hreinlega rústa atvinnuuppbyggingu á þessu svæði?

Ég var í rólegheitum mínum að borða kvöldmatinn síðastliðið fimmtudagskvöld þegar bankað var upp á og mér afhent rauð rós frá Samfylkingunni. Ég tók við henni, kvaddi Samfylkinguna og hugsaði með mér hvernig ætlar þessi rauða rós að bjarga heimilum og fyrirtækjum í landinu? Svarið kom mjög snögglega. Það þarf miklu meira en eina rauða rós til þess að bjarga heimilum og fyrirtækjum í landinu.

Nútíðin og framtíðin er það sem skiptir öllu máli. Við eigum að horfa fram á veginn en ekki eyða öllu okkar púðri í fortíðina. Þú, ágæti kjósandi, verður að spyrja þig einnar spurningar áður en þú ferð inn í kjörklefann næstkomandi laugardag: „Hvernig á mín framtíð að vera?”. Ef svarið er: „Hún á að vera framtíð tækifæra. Framtíð þar sem ég þori að láta drauma mína verða að veruleika”, þá setur þú X við Sjálfstæðisflokkinn. Ef svarið verður hinsvegar: „Já,nei,já,nei, já og loksins nei, semsagt engin framfaraþróun”, þá setur þú X við vinstri flokka landsins.

Ágætu Sjálfstæðismenn, til ykkar er brýnt að segja að auður seðill ætti ekki að vera  valkostur í þessari baráttu. Ég er sannfærður um að þið finnið fyrir því bláa og sterka hjarta sem þið hafið staðið fyrir svo oft áður þegar komið er inn í kjörklefana. Með því hjarta er ég viss um að þið kjósið rétt.

Ungir kjósendur, við erum mjög mikilvæg fyrir þessar kosningar. Við verðum að kjósa eftir bestu sannfæringu. Mín sannfæring sem ungur kjósandi er að kjósa Sjálfstæðisflokkinn fyrst og fremst vegna þess að við eigum að láta drauma framtíðarinnar verða að veruleika. Kynnið ykkur málin og sannfærist að X við D er eina rétta í stöðunni, fyrir ykkur.

Ég hef verið Sjálfstæðismaður í mörg ár, eftir hrunið þurfti maður að endurskoða gildin sín og um leið ákveða með hverjum maður ætti að stefna áfram. Með lista í Suðurkjördæmi, sem er einn sá sigurstranglegasti á landsvísu, þá er nauðsynlegt að fylgi flokksins verði með mesta móti svo við höldum okkar fjórum þingsætum í kjördæminu, og í draumum okkar bæta við fleirum. Því jú, draumar eru gerðir til að rætast.

Ég, Eyjólfur Gíslason ungur faðir á uppleið ætla að varðveita drauma mína og láta þá rætast. Það er mín sannfæring að Sjálfstæðisflokkurinn sé eini flokkurinn sem þorir að láta drauma rætast. Hann er flokkurinn sem gengur hreint til verks. Hann er flokkurinn sem mun gera allt sitt til þess að atvinnustarfssemi í Suðurkjördæmi verði með besta móti. Sjálfstæðisflokkurinn er flokkur sem horfir til framtíðar. Þess vegna fer mitt X óhikað og fagnandi í reit D – lista Sjálfstæðismanna í komandi kosningum til Alþingis 2009.

Koma svo!

Eyjólfur Gíslason,
Sjálfstæðismaður
Stjórnmála- og fjölmiðlafræðinemi


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024