Dísa í Dalakofanum
Það kom að því að ungarnir tíndust að heiman. Átti svo sem von á því einhvern daginn en var ekki alveg undir það búinn. Litla fiðrildið mitt hefur reyndar svifið um heimsins höf að undanförnu og fagra Frón virðist vera of lítið fyrir hana. Gott í bili, vonandi. En það bergmálar æ meir í húsinu. Geltið og gólið í hundkvikindunum er það eina rýfur þögnina nú orðið.
Ef það er eitthvað sem frúin hefur dálæti á, þá er það að flytja. Eitthvað sem flestum leiðist en hún er meistari í faginu, elskar að skipta um umhverfi. Býr til hlýja umgjörð hvar sem hún er, en bindst kofanum aldrei neinum böndum. Þveröfugt við mig auðvitað, enda Dalamaður í mér. Tala við húsið þegar ég kveð og þakka því umönnunina sem það veitti mér og mínum. Nú líður að næstu færslu og mig grunar, að hún sé sú næstsíðasta áður en við flytjum á Nesvelli. Ég hlakka mikið til þess að komast þangað. Held að þar sé gott að búa. Dísa veit það.
Hlakka þó meira til þess að verða afi. Get hreinlega ekki beðið. Vonast eftir því að upplifa augnaráðið sem í ungviðinu býr og hafa tímann til þess að sinna því. Umgengni barna við afa og ömmu er af hinu góða. Naut þess sjálfur og hef óspart boðið börnunum mínum að njóta þeirrar alúðar. Ekki spurning að samveran leiðir til þroska og skilnings. Veitir ekki af á þessum síðustu og verstu. Ekkert sorglegra en vita til þess, að margir einmana öðlingar sitji heima og bíði eftir heimsókn fjölskyldumeðlima. Það bara má ekki.
Velferðarkerfið er að mínu viti að fara illa með öðlinga þessa lands. Skattur á lífeyrissjóði skellur fyrst á þessu fólki. Þýðir lægri lífeyri og lakari kjör. Kallast víst jöfnuður hjá ríkisstjórn jafnaðarmennsku! Hvað er þetta, erum við ekki á uppleið aftur? Lífskjör öðlinga eru víða bág og þau eru heldur ekki alin upp í velferð. Þekkja hor og hungur betur en nokkur annar. Ég vil þó verða gamall. Fá að bölva nútíðinni og stæra mig af fortíðinni.