Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Miðvikudagur 24. október 2001 kl. 09:42

Deilur vegna malbikunarframkvæmda í Vogunum

-Sigurður Kristinsson hefur sagt sig úr hreppsnefnd vegna málsins-


Sigurður Kristinsson (H) hefur sagt sig úr hreppsnefnd í Vogum þar sem hann er ósáttur við vinnubrögð oddvita meirihlutans, Þóru Bragadóttur (H), vegna malbikunarframkvæmda við höfnina en þar stendur fyrirtæki Þóru, Beitir.
Meirihlutinn ákvað fyrir nokkru að fresta framkvæmdum á hafnarsvæðinu vegna fjárhagsstöðu hreppsins en síðar, 2. október sl. samþykkti nefndin að malbika umræddan vegbút og leggja bundið slitlag á Stapaveginn með því fororði að verktakar fengjust til að geyma reikninginn fram á næsta fjárhagsár.
Í viðtali við Suðurnesjafréttir í sl. viku segist Sigurður hafa verið á ferð um hafnarsvæðið og séð að malbikunarframkvæmdir þar væru hafnar. Hann segir þessi vinnubrögð vera forkastanleg og vænir Þóru um að hún hafi látið hefja framkvæmdir þar sem hún eigi persónulegra hagsmuna að gæta.
Pétur Einarsson, eigandi Fiskverkunar Péturs og Óla við Jónsvör 5 hafði samband við VF og sagði árás Sigurðar á Þóru vera ómaklega. „Húsið okkar stendur við hliðina á Beiti þannig að það er ekki eina húsið við þessa götu. Þess má einnig geta að það er krafa Fiskistofu að hafa bundið slitlag fyrir framan fiskverkunarhús svo að drasl og annað fjúki ekki inn. Við létum leggja bundið slitlag fyrir framan fyrirtækin okkar hérna við Jónsvör til að fylgja þessum reglum og kostuðum þær framkvæmdir sjálf. Það stóð til að ganga frá slitlagi á alla götuna en við það var hætt. Við erum búin að borga okkar gatnagerðargjöld og eigum því heimtingu á að fá bundið slitlag á götuna. Það er alls ekki rétt að Þóra hafi látið gera þetta eingöngu fyrir sig. Þetta er réttlætismál“, segir Pétur.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024