Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Dagur náms- og starfsráðgjafar
Fimmtudagur 19. október 2006 kl. 10:16

Dagur náms- og starfsráðgjafar

Þann 20. október næstkomandi verður haldinn dagur náms- og starfsráðgjafar. Tilgangur þessa dags er að vekja athygli fólks á þjónustu sem náms- og starfsráðgjafar veita bæði innan skólanna og úti á vinnumarkaðnum. Þessi þjónusta ætti að vera sjálfsögð og aðgengileg öllum í nútímasamfélagi. Það þarf að tryggja þennan aðgang frá bernsku til fullorðinsára og frá skóla til atvinnulífs.
Hvað varðar okkur náms- og starfsráðgjafa sem störfum hjá Vinnumálastofnun þá erum við fólki til aðstoðar við leit að starfi eða námi innanlands sem utan. Það er líka boðið upp á aðstoð við gerð ferilskrár eða atvinnuumsóknar auk undirbúnings fyrir starfsviðtal.
Þar sem atvinnuleitendur eru okkar stærsti viðskiptahópur þá er venjan að gera starfsleitaráætlun þar sem hugmyndir atvinnuleitandans um hvernig staðið skuli að atvinnuleitinni koma fram. Markmiðið er að atvinnuleitandinn sé virkur í leit að starfi.
Hjá vinnumiðlun sem hér eftir nefnist vinnumálastofnun (samkv. lögum frá 1. júlí sl.) og er til húsa að Hafnargötu 55 (fyrir ofan 10/11 verslunina) er góð aðstaða fyrir fólk til að sinna starfsleit. Þar er meðal annars aðgangur að tölvu og síma sem er atvinnuleitendum að kostnaðarlausu.
Ýmis úrræði standa atvinnuleitendum til boða eins og nám eða námskeið sem auka kunnáttu og færni viðkomandi einstaklings og styrkja hann út á vinnumarkaðinn. Þá eru líka til önnur úrræði sem náms- og starfsráðgjafar vinna að í samráði við atvinnurekendur. Þar má nefna starfskynningu sem er stutt, ólaunuð viðvera á vinnustað og starfsþjálfun sem er tímabundin þjálfun og þátttaka í starfsemi á vinnustað allt frá 3 mánuðum til 6 mánaða. Sérstök verkefni fyrir þá sem sýna frumkvæði til atvinnusköpunar o.fl.
Atvinnurekendur eru annar stærsti hópurinn sem leitar til okkar og þar skiptir máli að vera í sambandi við gott vinnuafl sem er í leit að starfi eða langar til að skipta um starf. Við höfum boðið atvinnurekendum upp á að koma til okkar og nýta sér þá aðstöðu sem er fyrir hendi þ.e. að taka starfsviðtöl og vera í beinu sambandi við náms- og starfsráðgjafa á staðnum um ýmis lykilatriði er skipta máli við leit að vinnuafli.
Verið velkomin til okkar að Hafnargötu 55 til að kynna ykkur málin ennfrekar eða sendið okkur línu á netfangið [email protected]
Að lokum þá mun Félag náms- og starfsráðgjafa halda málþing föstudaginn 20. október næstkomandi í Norræna húsinu kl. 13:00 – 17:00 undir heitinu „Náms- og starfsráðgjöf fyrir alla“ Sjá nánar á www.fns.is

Ketill G. Jósefsson
 

 
 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024