Dagur leikskólans - Í gegnum leikinn lærum við
Dagur leikskólans er haldinn hátíðlegur ár hvert þann 6. febrúar með ýmsum hætti um allt land. Markmið með deginum er að stuðla að jákvæðri umræðu um leikskólastarf og um leið beina athygli samfélagsins að því faglega og metnaðarfulla starfi sem innt er að hendi í leikskólum landsins á degi hverjum.
Ég er svo lánsöm að vera hluti af þeim fjölbreytta hópi leikskólakennara sem starfar í Reykjanesbæ og mig langar að segja ykkur frá því hvað við erum að vinna að. Um þessar mundir taka allir leikskólar Reykjanesbæjar þátt í þróunarverkefninu Leikgleði gegnum sögur og söng ásamt Bókasafni Reykjanesbæjar. Verkefnastjóri verkefnisins er Ólöf Kristín Guðmundsdóttir (Lóa) kennsluráðgjafi Menntasviðs Reykjanesbæjar. Verkefnið er unnið undir handleiðslu og í samvinnu við Birte Harksen leikskólakennara og handhafa íslensku Menntaverðlaunanna árið 2022 sem framúrskarandi kennari.
Áhersla þróunarverkefnisins Leikgleði gegnum sögur og söng er m.a. á eftirfarandi þætti: Markvissa málörvun, íslensku og íslensku sem annað mál, orðaforða, málskilning og tjáningu, upplifun og tjáningu, þar sem leikur, sögur, söngur og tónlist eru í aðalhlutverki.
Leikurinn er kjarni uppeldisstarfs í leikskólum. Í gegnum leikinn læra börnin. Leikurinn er bæði markmið og leið í uppeldi og menntun. Hann er nauðsynlegur fyrir þroska barna. Hann stuðlar að vitrænni, líkamlegri, félagslegri og tilfinningalegri vellíðan þeirra, eflir sköpunargleði, hugmyndaflug, sjálfstraust og námshæfileika. Svo mikilvægur er leikurinn í lífi barna að réttur barna til leiks er viðurkenndur í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í grein nr. 31: Öll börn eiga rétt á leik!
Í þróunarverkefninu Leikgleði í gegnum sögur og söng þá erum við að velja söngva, vísur, rím, þulur, kvæði, bækur og aðra texta, sem lifna við með t.d. leikrænni tjáningu, látbragði, hlutum, myndum, búningum, teikningum, föndri, leikföngum, o.s.frv. í daglegu starfi með börnunum. Við notum Orðaspjallsaðferðina til þess að útskýra orð og merkingu þeirra og best er ef hægt er að vinna með orðaforðann áfram í öðru samhengi og aðstæðum. Það köllum við samþættingu, þegar við tengjum eitt við annað, t.d. finnum orðin í annarri bók, í öðru lagi sem við syngjum, notum það í leik og heima fyrir. Eins sköpum við aðstæður þar sem börnin geta leikið sögu sem við höfum lesið eða brot úr sögunni. Það er svo margt sem getur orðið kveikja að leik. Sem dæmi má nefna lagið sem við syngjum, sagan sem við lásum, sjónvarpsefni sem barnið horfði á, upplifun barnsins og reynsla þess úr eigin aðstæðum og lífi. Reynsla barnsins og það sem barnið upplifir tekur oft á sig form leiksins.
Birte heldur úti nokkrum heimasíðum sem vert er að skoða og gefa betri mynd á verkefnið, þær eru:
- https://www.bornogtonlist.net/
- https://leikuradbokum.net/
- https://www.bornogtonlist.net/birte-og-immustund/
Í tilefni dagsins var sett upp þrautabraut á Heilsuleikskólanum Heiðarseli. Um er að ræða nokkurra ára hefð þar sem íþróttakennarar leggja brautina um allan leikskólann. Tónlist ómar undir og börnin hlakka alltaf jafn mikið til að hlaupa í gegnum brautina og leysa æfingar og þrautir sem fylgja henni.
Eins er gaman að segja frá því að einmitt á þessum degi fór elsta deildin, Bakki, í bókasafnsferð á Bókasafn Reykjanesbæjar þar sem boðið var upp á ratleikinn Að finna Valla. Frábært framtak hjá starfsfólki bókasafnsins og skemmtileg upplifun fyrir okkur sérstaklega á Degi leikskólans. Takk fyrir okkur. „Við bjóðum góðan dag – alla daga“.
Jóhanna Helgadóttir,
deildarstjóri á Heilsuleikskólanum Heiðarseli.