Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Dag skal að kveldi lofa
Miðvikudagur 10. ágúst 2016 kl. 14:02

Dag skal að kveldi lofa

Auðun Helgason, stjórnarmaður United Silicon skrifar

Að undanförnu hafa birst fréttir og greinar um United Silicon hf. og einn af eigendum félagsins. Það vekur furðu að enginn blaðamaður hafi haft samband við stjórn eða stjórnendur fyrirtækisins og leitað eftir athugasemdum þeirra og sjónarmiðum. Sem stjórnarmaður í United Silicon hf. vil ég með þessarri grein leiðrétta rangfærslur um málefni félagsins og upplýsa um stöðu mála. Ég ætla hins vegar að láta vera að leiðrétta ásakanir á hendur Magnúsi Garðarssyni, stofnanda félagsins. Hann mun örugglega gera það sjálfur þegar hann kemur úr sumarfríi. Magnús hefur, ásamt hópi innlendra og erlendra fjárfesta, unnið að verkefninu í 10 ár eða frá árinu 2006. Í maí 2014 lofaði hann að verksmiðjan yrði tilbúin í júní 2016. Í dag er verksmiðjan risin og brátt verða rúmlega 50 starfsmenn starfandi við verksmiðjuna. Afleidd störf munu vera a.m.k. tvöfalt fleiri. 

United Silicon hf. greiðir hærri laun en kjarasamningar kveða á um

Í sumum miðlum hefur verið ýjað að því að félagið ætli sér að flytja inn erlent vinnuafl og hýsa það í gámum eða vinnubúðum. Þessum fullyrðingum er algjörlega vísað á bug. Félagið hefur engin áform um að flytja inn erlenda verkamenn eða ráða til sín erlenda verkamenn í gegnum erlendar ráðningarstofur. Í dag er búið að ráða meirihluta þeirra starfsmanna sem munu starfa hjá United Silicon hf. Hingað til hefur félaginu gengið vel að ráða til sín öflugt fólk. Þvert á það sem gefið hefur verið í skyn þá eru flestir starfsmenn fjölskyldufólk með fasta búsetu í nágrenni verksmiðjunnar og það er ánægjulegt að sjá að brottfluttir Suðurnesjamenn hafa notað þetta atvinnutækifæri til að flytja til baka í heimahagana.  Félagið hefur ekki talið þörf á að gera sérkjarasamning eins og álverin hafa gert enda er þar um að ræða fyrirtæki með um tífalt fleiri starfsmenn. Félagið vill hins vegar laða til sín gott fólk og hefur því boðið starfsmönnum laun umfram það sem gengur og gerist samkvæmt þeim kjarasamningum sem eru í gildi á svæðinu og mörg miklu stærri fyrirtæki en United Silicon hf. nota. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Kísilframleiðslan hefst á næstu vikum

Nokkuð hefur verið rætt um tafir á gangsetningu kísilverksmiðju United Silicon hf. Því er til að svara að þegar framkvæmdir hófust sumarið 2014 var ráðgert að hefja framleiðslu í júní 2016. Núverandi áætlanir gera ráð fyrir að kísilframleiðslan hefjist í september næstkomandi. Þetta er ekki óeðlileg seinkun að mínu mati, ef litið er til umfangs verkefnisins.

United Silicon skuldar ekki lóðarleigu

Á sumum miðlum er því haldið fram að félagið skuldi Reykjanesbæ lóðarleigu.  Þetta er alrangt og ætti að vera einfalt að staðreyna hjá sveitarfélaginu sjálfu. Það er aftur á móti rétt að félagið hefur haldið eftir greiðslu til Reykjaneshafnar vegna þess að tafir hafa orðið á því að ráðast í hafnarframkvæmdir í Helguvík. Ekki mun standa á greiðslu frá félaginu þegar töfinni léttir.  Þess má geta United Silicon hf. greiðir hafnargjöld til Reykjaneshafnar samkvæmt gjaldskrá hafnarinnar, sem er mun hærri en hjá til dæmis Faxaflóahöfnum og Hafnarfjarðarhöfn.  Félagið mun ekki fá neinn afslátt af hafnargjöldum fyrr en inn- og útflutningur rýfur 200.000 tonna múrinn árlega og fæst þá einungis afsláttur gefinn af þeim tonnafjölda sem umfram er. Verksmiðjan þarf að stækka um 100% til þess að ná þeim áfanga.

Ágreiningur United Silicon og ÍAV verður leystur með dómi

Jafnframt er víða fjallað um deilur félagsins við Íslenska Aðalverktaka hf. (ÍAV). Því er haldið fram að félagið skuldi ÍAV launagreiðslur að fjárhæð 1000 milljónir króna. Þessu vísar félagið algjörlega á bug. Deilan snýst ekki um launagreiðslur heldur lokauppgjör milli aðila. United Silicon hf. vildi skuldajafna í uppgjörinu kröfu félagsins vegna stóraukins kostnaðar við stálinnkaup, flutning og uppsetningu, sem félagið telur á ábyrgð ÍAV. ÍAV hafnar því að bera ábyrgðina og þar stendur hnífurinn í kúnni. Málið verður leyst með dómi en ekki í fjölmiðlum. Þegar niðurstaða liggur fyrir þá munum við tjá okkur um málið. Ekki fyrr.

Ég geri þá kröfu að blaðamenn sem fjalla um mál líðandi stundar fari rétt með staðreyndir og að viðleitni þeirra til að upplýsa og fræða lesendur verði ekki borin ofurliði freistingunni að vekja athygli og skapa umtal með óvönduðum fréttum. Stjórnendur félagsins eru á öllum tímum reiðubúnir að svara spurningum blaðamanna er snúa að málefnum félagsins. Það mun ekki standa á því.

Virðingarfyllst,
Auðun Helgason, stjórnarmaður United Silicon hf.