Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Sunnudagur 5. maí 2002 kl. 19:51

D-listinn setur betri menntun, aðbúnað og öryggi heimilanna á oddinn

Markmiðið að stuðla að auknu heilbrigði og hamingju barna, unglinga, einstaklinga og fjölskyldna. Verkefnalistinn: Á meðal þeirra verkefna sem sett hafa verið á verkefnalistann, svo þessu markmiði verði náð er: - Stuðningur við forvarnarverkefnið "nýja barnið" hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Við byrjum á réttum stað. Hér er verkefni sem miðar að því að styðja og fræða verðandi mæður inn í fæðingu og fyrstu mikilvægustu tengslastundir móður og barns, svo þær verði sem hamingjuríkastar. Í sama tilgangi verði lögð áhersla á skilning feðra og aðstandenda á hlutverki sínu.
- Heilsdagsvistun í leikskólum fyrir 2-5 ára börn. Í samfélagi okkar skulu öll börn eiga rétt á slíkri vistun eftir tveggja ára aldur, án biðlista. Þar verði áfram lögð áhersla á vandað starf.
- Aukin gæði menntunar í grunnskólum. Skólarnir okkar eru að sækja í sig veðrið miðað við árangur á landsvísu. Við þurfum samt að gera betur. Bæjarfélagið allt þarf að vera þátttakandi í því. Með góðum stuðningi bæjarins og auknum áhuga foreldra á námi barnanna, getum við stutt kennarana okkar til að ná slíkum árangri.
- Vönduð þjónusta heilsdagsskóla. Hann tekur við að lokinni hefðbundinni kennslu. Markmiðið er að börnin hafi lokið innihaldsríkum og skemmtilegum starfsdegi sínum á sama tíma og hefðbundnum vinnutíma foreldra lýkur.
- Verkefni Vinnuskólans. Engar eyður mega skapast í árinu þar sem börnin eru algjörlega eftirlitslaus. Vinnuskólinn hugar að þessu forvarnarmarkmiði fyrir þá sem hann sækja, en hann á einnig að fylgja forvarnarstarfinu inn í grunnskólana.
- Samstarf. Verkefnið verður ekki síst að auka samstarf og fræðslu á milli mismunandi eininga í bæjarfélaginu, svo forvarnarstarfið beri árangur. Hér má nefna aukið samstarf skóla og heilsugæslu, að auka fræðslu til foreldra, til kennara, leiðbeinenda og þjálfara barna á leik- og grunnskólaaldri. Ekki síst þarf að samræma fræðslu allra aðila sem starfa með börnum og unglingum.
Einn stærsti þátturinn í forvarnarstarfi er að stuðla að auknum tilboðum í heilbrigðum tómstundum fyrir alla aldurshópa og efla iðkun þeirra. Á sama hátt þarf að efla íþróttaiðkun. Margt af því sem nefnt hefur verið hér að ofan, eins og heilsdagsskóli, er leið að sama markmiði.
Í öllum samfélögum verða einhverjir undir. Við þurfum að berjast fyrir að slíkt gerist ekki, en þar sem það gerist þarf markvissa aðstoð til að styðja einstaklingana og fjölskyldur þeirra á fætur að nýju. Þess vegna er mikilvægt að vanda áfram til vinnu og forvarnarstarfs Fjölskyldu- og félagsþjónustunnar í Reykjanesbæ.
D-listi sjálfstæðismanna er eini listinn sem lagt hefur fram heildstæða áætlun um fræðslu- og forvarnarstarf í þágu barna og unglinga. Við færum orð í efndir.

Árni Sigfússon,
bæjarstjóraefni D-lista sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024