"Bull", segir Skúli Thoroddsen um heilsugæsludeiluna

En hverjir skildu nú vera stjórnendur HSS? Ekki er það stjórn stofnunarinnar, því hún hefur aldrei verið kölluð saman til að ræða málið. Þvert á móti er búið að samþykkja það hljóðlega í stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, að leggja niður stjórnina að tillögu ráðherra. Að vísu tekur framsóknarráðherrann lítið mark á heimamönnum en spurningin er hvort heimamenn hafi gefist upp fyrir ríkisvaldinu um að ráða einhverju um það hvernig heilbrigðisþjónustu þeir vilja hafa? Er heilbrigðishagsmunum okkar betur borgið hjá ráðherra en í okkar eigin höndum? Eru stjórnvöld endanlega búin að kistuleggja baráttumál Bjarna Benedikssonar, Gunnars Thoroddsens og Geirs Hallgrímssonar, að heilbrigðisþjónustan eigi að vera í höndum heimamanna eins og kostur er. Við sjáum hvað er að gerast hjá HSS.
Fyrrverandi læknar HSS hafa gert okkur Suðurnesjamönnum grein fyrir sinni hlið málsins (VF 19/12). Þar kveður við annan tón en í fréttatilkynningu HSS. Fjallað er um þau faglegu vandamál sem að stofnuninni steðja og varða heilbrigðisöryggi íbúa svæðisins. Bent er á að heilugæslulæknar hafi mætt bráðatilvikum, m.a. hjartaáföllum og lyfjaeitrunum, án þess að á sjúkrahúsinu væri lyfjadeild og tilheyrandi bráðamóttaka eins og gerist almennt á þéttbýlisstöðum. Þeir benda réttilega á undirmönnun, sem er bæði slítandi og gerir starfið óspennandi. Þeir hafi komið til móts við þau verkefni sem vinna þurfti m.a. með sveigjanlegum vinnutíma. Allt eru þetta góð og gild rök og enginn sem til þekkir efast um faglega sýn þeirra á starfsemina. Þetta leiðir hins vegar hugann að því að alla stefnumörkun skortir fyrir HSS og framtíðarsýn. Stefnuleysið bitnar á heilsugæslunni. Við sitjum í súpunni hér á Suðurnesjum og súpum seiðið af ráðleysi í heilbrigðismálum almennt, sem nú er að koma fram. Það vita allir sem vita vilja að vinnulag heilsugæslulækna er mun ódýrari fyrsti kostur en sérfræðilæknisþjónusta. Öflug frumheilsugæsla er þess vegna skynsamleg og hana þarf að efla en ekki brjóta niður eins og virðist vera raunin á Suðurnesjum. Að reyna að koma sök á læknana í máli HSS er afar ómaklegt. Það er þó enn meiri lákúra að senda fréttatilkynningu til íbúa Suðurnesja um að málið sé í hnút, sem framkvæmdastjórinn og ráðherrann ráða ekki við, vegna þess að lög banni. Það er bull.
Skúli Thoroddsen