BRÝN UMHVERFISMÁL Á SUÐURNESJUM
1. Umhverfismenntun í skólum og fyrir almenning, m.a. að hjálpa fólki að koma auga á og njóta töfra náttúrunnar sem við lifum og hrærumst í, bæði sjálfra okkar vegna og eins til að geta eflt ferðamennsku og leitt gesti okkar að leyndardómum náttúrunnar. Umhverfismenntun er nauðsynlegt veganesti á leið okkar til sjálfbærara samfélags til að tryggja náttúrugæði afkomenda okkar.2. Ódýrir almenningsvagnar gangi milli byggða á Suðurnesjum (m.a. í flugstöðina) og til Reykjavíkur á 1/2 klst. fresti. Almenningsvagnar eru jafnréttiskrafa þess helmings þjóðarinnar sem ekki eiga bíl eða hafa bílpróf. Þannig er hægt að draga úr umferðarþunga og mengun, spara stórfé og gera t.d. rándýra tvöföldun Reykjanesbrautarinnar óþarfa!Ríkið þarf að styrkja almenningssamgöngur verulega, sem samt eru smámunir miðað við það sem sparast.3. Skipuleggja græna ferðamennsku þannig að ánægja ferðamannsins aukist jafnframt því sem minna eyðist af eldsneyti og dregur úr mengun.4. Leggja góða hjólreiðastíga um Suðurnes til ánægjauka og heilsubótar, til að fyrirbyggja slys, efla ferðamennsku og draga úr umferðarþunga. Leggja ætti áherslu á markvissa trjárækt með stígunum til þess að auka skjól án þess þó að byrgja útsýni.5. Gróðurvernd og uppgræðsla - að greiða skuldina við landið með því að græða upp örfoka land og nýta til þess lífrænan úrgang, Einnig gróðursetja tré og kjarr til að skapa skjól og hlýlegra og fjölbreyttara umhverfi.6. Sorpflokkun til að draga úr mengun og endurnýta sem mest og spara þannig útgjöld og skapa ný auðæfi. Allan lífrænan úrgang frá fyrirtækjum og heimilum á að nýta við uppgræðslu og garðrækt til að bæta hinn snauða jarðveg.7. Skólphreinsun í heilbrygðis- og náttúruverndarskyni, að hreinsa fjörurnar án þess þó að senda óþverrann út á fiskimiðin.8. Sauðfé og hross verði í beitarhólfum, eins og nú þegar er raunin á Rosmhvalanesi og Vatnsleysuströnd.9. Herinn burt, friðarstarf í stað hernaðar. Af hernaði stafar gífurleg eyðilegging, mengun og auðlindasóun um heim allan.10. Efla rannsóknir á náttúru og umhverfi til lands og sjávar, sem eru grundvöllur skynsamlegrar nýtingar. Hlúa að stofnunum eins og Fræðasetrinu og Rannsóknastöðinni í Sandgerði, Sæfiskasafninu, byggðasöfnunum o.fl. Ég álít að Vinstri hreyfingunni - grænu framboði sé treystandi til að koma þessum brýnu umhverfismálum áleiðis.Þorvaldur Örn Árnason, lífræðingur.Skipar 6. sæti U-listans í Reykjanesumdæmi