Brúðkaup
Hvað er Örvar Þór Kristjánsson að segja í Lokaorðum um brúðkaup?
Sumarið er allt í einu farið. Haustið mætt með allri sinni dásamlegu rútínu, roki og rigningu. Hef miklar mætur á sumrinu en fagna þó ávallt komu haustins enda skólanum og leikskólanum tekið fagnandi á mínu heimili. Sumrin mín eru ávallt viðburðarrík og nóg af skemmtilegum verkefnum sem falla í mínar hendur. Eitt slíkt verkefni hefur verið að veislustýra brúðkaupum sem flest fara jú fram á sumarmánuðum.
Á undanförnum árum hef ég tekið að mér að veislustýra ansi mörgum brúðkaupum yfir sumarið. Ótrúlega skemmtilegt og gefandi starf en á sama tíma mikil ábyrgð og hörku vinna, þarna er fólk að treysta manni fyrir einum af merkustu dögum lífsins. Maður vill alls ekki klúðra því! Brúðkaup eru afar skemmtileg þrátt fyrir að þarna hittist oft ólíkir hópar sem hafa misjöfn tengsl við brúðhjónin. Það getur stundum verið „trikkí“ að fá upp stemmningu en yfirleitt er það ekkert mál, það eru nefnilega þannig straumar í þessum veislum. Flestir eru mættir til þess að skemmta sér og gera daginn/kvöldið sem eftirminnilegast fyrir brúðhjónin. Brúðkaupin sem ég hef stýrt hafa verið af öllum stærðum og gerðum, smekkur fólks er enda misjafn en það sem skiptir þó ávallt mestu máli er hugarfar gestanna. Mætið í brúðkaup til þess að skemmta ykkur og njóta. Af öllum þeim hjónum sem ég hef veislustýrt fyrir þá hafa þau öll átt eitt sameiginlegt, þau hafa viljað fá formúluna fyrir því að fólk skemmti sér sem best. Þeirra gleði er m.a. fólgin í því að sjá fólkið sitt virkilega gleðjast og skemmta sér í veislunni. Þannig mætið hress í brúðkaupin, ekki vera feimin að fá ykkur aukalega á diskinn eða skilja bílinn eftir og detta í einn til sjö kalda. Mætið til þess að taka þátt í partýinu af fullum krafti því það er ekki síður mikilvæg gjöf. Tæmið barinn!
Tók að mér fyrir einhverjum árum síðan að veislustýra brúðkaupi út á landi hjá manni á besta aldri sem var reyndar að gifta sig í fimmta skipti, það var ekkert verið að flækja hlutina í sveitinni alltaf átti hann sömu tengdaforeldrana. Ég rakst reyndar á þennan sama mann í Kringlunni fyrir skemmstu, ég spurði hann hvernig þetta gengi allt saman hjá þeim hjónum. Það stóð ekki á svörum, „Mjög vel“ sagði hann og bætti við, „Gift í að verða níu ár núna. Við höfum það fyrir reglu að fara alltaf tvisvar sinnum í mánuði út að borða og svo fylgja kossar og innilegt kelerí á eftir. Lykillinn er að ég fer á fimmtudögum og hún á sunnudögum“
Óska öllum brúðhjónum sumarsins innilega til hamingju.