Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Breytt fiskveiðistjórn
Föstudagur 24. apríl 2009 kl. 23:22

Breytt fiskveiðistjórn

Harðar deilur hafa staðið um stjórn fiskveiða í meira en tvo áratugi. Þrátt fyrir ákvæði laga um að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar hafa aflaheimildir verið markaðsvæddar og þær safnast á æ færri hendur. Ekki verður framhjá því litið að markmið núverandi laga hefur ekki náðst og þróunin sumpart orðið í þveröfuga átt.


Endurreisn íslensks efnahags- og atvinnulífs
Íslenskur sjávarútvegur mun gegna lykilhlutverki við þá endurreisn íslensks efnahags- og atvinnulífs sem framundan er. Þessu gerum við í VG okkur grein fyrir og dylgjur um annað er þvættingur. Þó íslenskur sjávarútvegur glími nú við erfiðleika vegna mikilla skulda og versnandi efnahagsástands á sínum helstu markaðssvæðum er ljóst að möguleikar okkar til gjaldeyrisöflunar og verðmætasköpunar liggja að stórum hluta í sjávarútveginum. Ætla má að sjávarútvegurinn muni enn á ný reynast það afl sem knýr íslenskt hagkerfi áfram.

Að endurráðstafa aflaheimildum
Við í VG höfum lengi talið mikilvægt að ráðast í úrbætur á núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi en gerum okkur um leið ljóst að ekki er unnt að gera það með einu pennastriki. Hér þarf að vanda til verka og hugsa til lengri tíma. Það er ekki markmið VG að hvolfa bátnum.

Hvaða leiðir eru færar?
Það er alveg ljóst í mínum huga að það verður að skoða framsal aflaheimilda á milli útgerða. Það er ekkert eðlilegt við það að fá úthlutað kvóta trekk í trek til þess eins að leigja hann frá sér.
Sértæk leið úr smiðju VG sem hægt væri að hefjast handa við nú þegar er að hluti þeirra aflaheimilda sem leigðar eru á hverju fiskveiðiári gangi til ríkisins þegar til endurúthlutunar kemur. Með því mætti reisa skorður við leiguviðskiptum sem leitt hafa til þess að litlu útgerðirnar verða í sífellt auknum mæli illa settir leiguliðar. Með endurráðstöfun innleystra heimilda gæti skapast aukið öryggi og festa í sjávarbyggðum og bætt staða fyrir litlar útgerðir, samhliða því að nýliðun yrði möguleg.
Fyrir utan þessa megin leið erum við tilbúinn að skoða aðrar leiðir til innköllunar kvótans verði það til að flýta fyrir nauðsynlegum umbótum á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Hér tel ég nauðsynlegt að kalla að borðinu alla þá sem hagsmuna eiga að gæta.

Framsal og bankahrun
Frá því að framsal aflaheimilda var heimilað með lögum hafa átt sér stað stórfelld viðskipti með þær og þá sérstaklega eftir einkavæðingu bankanna á árunum 2001 – 2002. Aðkoma einkabankanna og takmarkalítil lán þeirra með veði í aflaheimildum til handahafa þeirra hafa haft í för með sér að söluverð á aflaheimildum hefur hækkað langt umfram raunverulegt verðmæti þeirra. Lán með veði í aflaheimildum hafa verið nýtt til hlutabréfakaupa í bönkum og öðrum fyrirtækjum. Er nú svo komið að sjávarútvegurinn er afar skuldsett atvinnugrein og ljóst er að mörg fyrirtæki sem fengið hafa aflaheimildir til afnota standa mjög illa fjárhagslega. Þetta sýna m.a. tölur úr skýrslu Binna í Vinnslustöðunni, en þar kemur líka fram að samhliða stórauknu verðmæti aflaheimilda hafa áhættufjárfestingar innan sjávarútvegsfyrirtækja aukist.

Hagsmunir hverra?
Sjónarmið hagsmunaaðila innan sjávarútvegs eru ólík. Arður mældur í krónum og aurum er sýnilegur og nauðsynlegur til að hægt sé að leggja fram ársreikninga og greiða út hagnað til hluthafa. En hver er hagur heildarinnar og hvenær er hann hafður að leiðarljósi, ég bara spyr?

Jórunn Einarsdóttir, skipar 3. sæti á lista VG í Suðurkjördæmi


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024