Breytingar á strætóferðum - endurskoðunar krafist
Ég get ekki lengur orða bundist. Hvers eigum við íbúar Innri-Njarðvíkur að gjalda? Það er nokkuð ljóst að þeir bæjarstjórnarmenn sem búa í Innri-Njarðvík, eru ekki með börn sem sækja þurfa tónlistarskólann eða íþróttaæfingar seinni part dags. En ég á tvær dömur sem þurfa að sækja sínar æfingar eftir kl. 18:30.
Ég er mjög ósatt við, og ekki ein um það, að hætta eigi að keyra kl. 18:30 og fækka ferðum eftir skólatíma. Um síðustu áramót hættu þeir að keyra á sunnudögum og á kvöldin eftir kl. 21:30. Það var allt í lagi því þá eru stelpurnar mínar búnar a æfingum og engar æfingar á sunnudögum. En nú blasir þessi veruleiki við okkur um áramótin. Annaðhvort verða stelpurnar minar að hætta að æfa íþróttir, ég að fjárfesta í öðrum bíl eða flytja úr Innri-Njarðvík og nær íþróttamannvirkjunum. Enginn af þessum kostum er gódur. Stelpurnar mínar hafa æft íþróttir síðan þær voru a leikskólaaldri svo það kemur ekki til greina að þær hætti. Ég hef ekki efni á öðrum bíl enda eina fyrirvinnan á heimilinu og ég get ekki flutt því ég losna ekki við húsnæðið á þessum síðustu og verstu tímum og hver vill flytja með börn í hverfi þar sem samgöngurnar til og frá eru til háborinnar skammar.
Geðheilsa mín verður fljót að fjúka út um gluggann þvi ég verð að vera stöðugt á vaktinni til að sækja þær á æfingar. Ég get ekki sótt danstímana mina a kvöldin eins og ég er vön eða bregða mér bæjarleið því ég þarf að skutla þeim á æfingar og sækja þær. Ég gæti hugsanlega verið alveg uppá aðra komin með far í dansinn til að eldri dótturin geti farið akandi á æfingu en þá kemst sú yngri ekki heim af æfingu. Við foreldrar í Innri-Njarðvík eigum líka okkar líf.
Þetta er til háborinnar skammar og þessu bæjarfélagi ekki sæmandi. Það hlýtur að vera hægt að spara a annan hátt. Það væri i lagi min vegna að hætta að keyra á laugardögum og hafa lengra á milli ferða a skólatima en ekki að honum loknum. Börnin í hverfinu þurfa að komast í tónlistarskólann og á æfingar og þeim lýkur ekki fyrr en um kvöldið. Sumir eru bæði í tónlistarskólanum og stunda íþróttir eins og yngri dóttir mín og á hún núna möguleika á að komast heim á milli lúðrasveitaræfingar, tónfræðslu og sundæfinga en ekki eftir áramót ef veruleikinn verður klukkutími á milli ferða.
Voru þessar fyrirhuguðu breytingar bornar undir íþróttafélögin? Eru þau í stakk búin til að færa til æfingar eða reka bíl til að sækja börnin og skutla þeim heim. Nei, það held ég ekki. Voru þær bornar undir íbúana í Innri-Njarðvik sem mér hefði fundist eðlilegt þvi þetta kemur verulega niður á þeim? Nei, það var ekki gert. Þessi ákvörðun er ekki borin undir grasrótina heldur slengt á okkur og svona rétt fyrir jólin til að við komumst alveg örugglega ekki í jólaskap. Enda óþarfi því jólunum hefur verið frestað í Innri-Njarðvík. Það er nokkuð ljóst að bæjarstjórnarmenn eiga ekki börn sem þurfa að sækja tónlistarskóla eða íþróttaæfingar úr Innri-Njarðvik.
Ég krefst þess að þetta verði endurskoðað.
Helga Eiriksdóttir, reiður íbúi i Innri-Njarðvík.