Breytingar!
Það eru mikilvægar kosningar framundan með stórum áskorunum sem ný ríkisstjórn þarf að hafa kjark og pólitískt þrek til að ráðast í.
Við þurfum að byggja upp eftir heimsfaraldur og takast um leið á við loftlagsvá af mannavöldum, breytta aldurssamsetningu þjóðarinnar og sjálfvirknivæðingu sem hefur áhrif á störf og starfsskilyrði.
Tæknibyltingin með aukinni sjálfvirkni opnar á fjölmörg tækifæri. Sama gildir um tæknibyltinguna og aðgerðir í loftlagsmálum. Það verður að koma í veg fyrir að þróunin auki ójöfnuð. Hún þarf þvert á móti að auka jöfnuð.
Við jafnaðarmenn óttumst ekki nýja tækni. En við óttumst hins vegar að þrátt fyrir hana fái hið gamla og úrelta að ráða sem eykur ójöfnuð og frestar nauðsynlegum aðgerðum. Með jafnaðarstefnunni náum við þeirri efnahagslegu og samfélagslegu endurnýjun sem við þurfum svo sárlega á að halda.
Leiðarljósið á að vera öflug heilbrigðis- og velferðarþjónusta fyrir alla, jafnrétti til náms og heilbrigður vinnumarkaður sem stendur vörð um réttindi launamanna ásamt efnahagsstjórn sem gerir þetta mögulegt. Það verður ævinlega að taka almannahagsmuni fram fyrir sérhagsmuni og þjóðin á að fá fullt verð fyrir auðlindirnar. Við megum aldrei þola ranglæti og spillingu.
Byggjum upp
Í uppbyggingunni sem framundan er þarf að vinna gegn atvinnuleysinu kröftuglega af hugkvæmni og dirfsku, renna fleiri stoðum undir atvinnulífið, verja velferðina, mæta tekjufalli fólks sem missir vinnuna og veita ungu fólki tækifæri til að nýta menntun sína hér á landi.
Um þessar mundir sópast æ fleiri og verðmætari eignir á hendur fárra. Við því verður að bregðast. Aðgerðir okkar verða að vinna gegn ójöfnuði, skapa fleiri störf, fjárfesta í innviðum, hlúa að barnafjölskyldum og byggja upp eðlilegan húsnæðismarkað. Fjárfestingar í umönnun og velferð, svo sem öldrunarþjónustu, heilbrigðiskerfi og skólum, eru ekki síður ábatasamar fjárfestingar en t.d. í opinberum framkvæmdum eða í byggingariðnaði.
Kjör eldra fólks og öryrkja
Ójöfnuður vex ekki aðeins vegna atvinnuleysis og auðsöfnunar fárra heldur einnig vegna þess að ellilífeyrir og örorkulífeyrir hækka ekki í takti við lægstu laun. Á undanförnum árum hefur munurinn aukist og honum verður að eyða með því að hækka elli- og örorkulífeyri. Í fyrsta skrefi ætti í það minnsta að hækka grunninn um krónutöluhækkanir lífskjarasamninganna. Draga þarf einnig verulega úr skerðingum í kerfinu sem halda fjölmennum hópum i fátæktargildru.
Ástandið á húsnæðismarkaði kallar á önnur búsetuúrræði og nýja sýn stjórnvalda. Sjálfstæð búseta á eigið heimili til æviloka ætti að vera höfuðmarkmið með fjölbreyttum valkostum. Einstaklingsbundin þjónusta á eigin heimili þarf að vera möguleg. Endurskoða verður fjármögnun stofnanavistunar og greiðsluþátttöku og sjá til þess að fjárhagslegt sjálfræði og sjálfstæði einstaklinga liggi fyrir. Virðing verði borin fyrir lífi fólks og frelsi.
Það þarf kjark, áræði og skýra sýn jafnaðarmanna til að byggja upp og bæta líf fólksins í landinu. Kjósum Samfylkinguna!
Oddný G. Harðardóttir,
þingmaður og oddviti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi.