Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Bragarbót fyrir börn með tal- og málþroskaraskanir
Fimmtudagur 24. janúar 2013 kl. 15:38

Bragarbót fyrir börn með tal- og málþroskaraskanir

Eftir Unni Brá Konráðsdóttur

Að geta átt samskipti við aðrar manneskjur er eitt það mikilvægasta í daglegu lífi hvers manns. Það hjálpar manneskju að geta tjáð vanlíðan sína og óánægju, tjáð gleði og langanir. Til að ná árangri í starfi þurfum við að geta skýrt hugsanir okkar í máli. Samskiptahæfni okkar byggist á þróun máls, tals og skilnings. Ef röskun verður á tali eða málþroska geta afleiðingarnar verið námserfiðleikar, hegðunarvandamál og andlegir erfiðleikar.

Á Íslandi er áætlað að um 300-700 börn í hverjum árgangi þurfi á aðstoð að halda vegna tal- og málþroskaröskunar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Til að þessir einstaklingar virki betur innan hópsins, samfélaginu öllu til heilla, þarf að aðstoða þau. Í dag er þjónusta við þessi börn ekki nægjanleg og oft erfitt fyrir aðstandendur þeirra að átta sig á hvert skuli leita. Aðalskýringin á því er að málaflokkurinn heyrir undir tvö ráðuneyti og er bæði á vegum ríkis og sveitarfélaga. Margar stofnanir bera ábyrgð á þjónustu, eftirliti og stefnumótun og skimun fer bæði fram innan heilbrigðiskerfisins og menntakerfisins.

Menntamálanefnd Alþingis óskaði eftir skýrslu frá menntamálaráðherra um stöðu þessara mála og kom skýrslan út í mars 2012. Í skýrslunni kemur fram að erlendis sé víða gert ráð fyrir að um 15% leikskólabarna og 10% grunnskólabarna þurfi aðstoð vegna tal- og málþroskaraskana til lengri eða skemmri tíma. Á Íslandi eru engar opinberar tölulegar upplýsingar til um fjölda barna sem greind hafa verið með tal- og málþroskaröskun.

Skýrslan dregur fram að kerfið er of flókið og ekki nægilega skilvirkt auk þess sem það annar engan veginn eftirspurn. Langir biðlistar eru eftir greiningu og sérfræðiaðstoð. Það er ekki ásættanlegt að ung börn þurfi að bíða í allt að ár eftir að fá þá þjónustu sem þau þurfa.

Ég hef ásamt 9 öðrum þingmönnum lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að mennta- og menningarmálaráðherra verið falið að endurskoða málefni barna og ungmenna með tal- og málþroskaröskun með markvissri aðgerðaáætlun í samræmi við niðurstöður skýrslunnar.

Tillaga að endurskoðun hefur nú verið samþykkt í velferðarnefnd og bíður afgreiðslu Alþingis.

Foreldrar, talmeinafræðingar, sérkennarar, grunnskólakennarar og leikskólakennarar þurfa að geta unnið saman af virðingu og heilindum börnunum til heilla. Nefndin leggur áherslu á að náin samvinna verði milli mennta- og menningarmálaráðuneytisins, velferðarráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Ef hægt er að láta þessa málsaðila og þessar stofnanir tala saman er von til þess að bragarbót verði á málefnum þess stóra hóps barna sem eru með tal- og málþroskaröskun. Þá geta allir talað betur saman.

Höfundur er þingmaður og gefur kost á sér í 2. sæti í prófkjöri sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi.