Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Börnin við enda Regnbogans
Fimmtudagur 4. apríl 2013 kl. 10:32

Börnin við enda Regnbogans

„Baráttan gegn hverskyns misrétti og ofbeldi er forgangsverkefni. Tryggja þarf öllum börnum öryggi, uppbyggileg lífsskilyrði og jafna möguleika til farsæls lífs.“ (Úr stefnuyfirlýsingu Regnbogans)

Við í Regnboganum leggjum mikla áherslu á rétt barna, á lífskjör barna og á möguleika þeirra til fá að dafna sem börn og unglingar í heilbrigðu samfélagi.
Þessi réttindi og þessir möguleikar verða aldrei til staðar í samfélagi sem byggir á gildum græðgi og okurs, og ekki heldur í skjóli hugmyndafræði sem horfir framhjá sérkennum einstaklingsins hvort heldur er í námi eða leik. Börn þurfa umhyggju og hlýju, og traust bakland þar sem heimilið skipar mikilvægasta sessinn; þar sem mannhelgi barnsins er virt og öryggi þess tryggt.
Barn sem veit ekki hvar það muni búa eftir viku eða tvær, barn sem heyrir foreldra sína stöðugt deila um afborganir og peningaráðstafanir, barn sem elst upp við óreglu og ofbeldi í ofanálag við fjárhagslegar áhyggjur og óljóst tal um flutninga og jafnvel hjónaskilnað - barn sem þarf að búa við eitt af þessum atriðum eða fleiri, það barn lifir ekki við mannsæmandi aðstæður.
Atvinnuleysi er kjörlendi fyrir þær aðstæður sem að ofan var lýst. Viðvarandi atvinnuleysi er ræktunarreitur vonleysis og ömurleika, sundrungar og sorgar. Atvinnuleysi þess fullorðna er böl barnsins vegna þess að það elur á óöryggi og ótta, kvíða og ráðleysi.
Stjórnvöldum, ríkisstjórn og alþingi, ber skylda til að huga að hag barnanna – auka atvinnu og um leið vellíðan. Það er hafið yfir flokkadrætti og það er hafið yfir loforð. Það er hafið yfir verðtryggingu og vexti, hafið yfir lög. Það er líka hafið yfir barnasáttmála og alþjóðlegar samþykktir. Atvinna og börn eru þannig samtvinnuð því atvinna foreldris er vinningur barnsins.
Ég gæti varið tíma mínum í að ljúga einhverju að ykkur um afnám verðtryggingar eða niðurfærslu lána eða jafnvel lofað ykkur páskum árið um kring. Tíma mínum sem frambjóðanda væri sjálfsagt betur varið í loforð, gylliboð og yfirboð – en ykkur að segja, þá læðist að mér sá grunur að þið séuð ekki þeir fábjánar sem hinir svokölluðu „stóru“ flokkar halda að þið séuð. Og ég er reyndar nokkuð viss um að þegar allt kemur til alls þá séuð þið mér meira sammála en þeim: Baráttan stendur um störf og hún stendur um börn. Mest þó um börnin. Í það minnsta finnst mér þau merkilegust þótt þau kjósi ekki neinn!
Regnboginn teygir sig líka yfir börnin og leggur mikla áherslu á velferð þeirra - og þótt svo það megi vera illmögulegt að komast undir enda regnbogans til þess að óska sér - þá leggur Regnboginn allt í sölurnar svo ósk hvers lítils einstaklings megi finna farveginn þar sem óskirnar rætast: Farveg öryggis og friðsældar; farveg hamingjunnar.

Farsæl framtíð byggist á hamingjusömum börnum.

Munið að kjósa Regnbogann: X - J

Guðmundur Brynjólfsson rithöfundur og djákni skipar 2. sæti Regnbogans í Suðurkjördæmi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024