Börnin okkar
Allt frá fæðingu er manneskjan háð ástúð og umhyggju annarrar manneskju og þá helst foreldra sinna. Börn þurfa að geta reitt sig á sína nánustu og það skiptir sköpum um velferð barna hvernig foreldra þau eiga, hvernig aðbúnaður foreldranna er og hvernig samfélagið sinnir sínum skyldum. Mestu erfiðleikar sem börn eiga við að stríða er að eiga foreldra sem ekki sinna þeim, eru ekki í stakk búnir að axla foreldraábyrgð og eru ekki færir um að skapa börnum sínum viðunandi uppvaxtarskilyrði. Öll börn eiga rétt á góðum foreldrum og það ætti að vera öllum ljóst hvað það er sem gerir fólk að góðum foreldrum. Foreldrar vilja reynast barni sínu vel og sé fjölskyldan hornsteinn hvers þjóðfélags er mikið í húfi að við sem þjóð getum sammælst um hvað felst í foreldra-ábyrgð að 18 ára aldri barnsins. Í því samhengi er nauðsynlegt að spyrja hvað hægt er að gera til að styðja foreldra sem margir eru undir miklu álagi og við það að bugast í því þjóðfélagsástandi sem við nú búum við.
Uppeldi og menntun er lögum samkvæmt sameiginlegt verkefni heimila og skóla og miðar að því að kalla það besta fram í börnum og skapa skilyrði til að hámarka eiginleika hvers og eins. Lögð er áhersla á að börn fái notið hæfileika sinna, njóti bernskunnar og fái verkefni sem hæfa aldri þeirra og þroska. Að börn lifi og læri í lýðræði og búi við mannréttindi er sjálfsögð krafa í velferðarþjóðfélagi. Þetta eru fögur orð og áform en enginn skóli eða stofnun kemur í stað foreldra og foreldrar geta ekki komið í stað skóla. Í skólum og frítímaþjónustu eflast þau félagslegu tengsl sem börnum eru nauðsynleg í samfélagi við annað fólk. Að tilheyra hópi og þroskast og dafna innan um vini og jafningja er hverju barni nauðsynlegt.
Því miður færist í vöxt að foreldrar geti ekki séð börnum sínum farborða eða eru ekki í stakk búnir að annast börn sín af ýmsum ástæðum. Vanheilsa foreldra getur þar komið til og þau börn sem eiga foreldra sem eru veikir fyrir af einhverjum ástæðum eiga oft erfitt. Í slíkum tilvikum reynir á samhjálp og samfélagsþjónustu. Kerfið þarf að bregðast við ef foreldrar bugast, eru vanbúnir eða leita sér ekki aðstoðar. Börn hafa takmarkaða möguleika á að bera sig eftir björginni eða berjast fyrir réttindum sínum. Ef foreldrar gera það ekki, eða börnin eiga foreldra sem ekki ráða við hlutverk sitt, standa börnin ein og án stuðnings. Það er sá hópur sem verður verst úti í samfélaginu og hópur sem við berum öll ábyrgð á.
Nöturleg staðreynd kom fram í svari velferðarráðherra við fyrirspurn á hinu háa Alþingi nýlega um að 1.294 mál séu skráð sem heimilisófriður hjá lögreglu á sl. ári (2012) og þar af rúmlega 300 mál sem heimilisofbeldi. Nærri lætur að lögreglan sé kölluð út einu sinni á dag vegna heimilisofbeldis. Afleiðingar heimilisofbeldis eru margvíslegar og birtast m.a. í því að nær helmingur unglingsstúlkna, mæður framtíðarinnar, sem orðið hafa fyrir slíku ofbeldi finnst framtíðin oft og nær alltaf vonlaus.
Niðurstaða nýlegrar skýrslu Unicef um réttindi barna er skýr en þar segir að ein helsta ógn sem steðjar að börnum á Íslandi sé ofbeldi. Ógnin sé mikil en forvarnirnar takmarkaðar. Það er því verðug spurning til frambjóðenda í komandi alþingiskosningum hvað þeir setja í forgang til að búa börnum á Íslandi betra líf og öruggari heimili. Við getum ekki bara rannsakað og skoðað afleiðingar hrunsins eða ástandið sem er í málefnum barna á Íslandi. Við þurfum að bregðast við því með afgerandi hætti. Við þurfum að ná til foreldra, styðja þá og efla enn frekar samstarf heimila og skóla um velferð barna. Það þarf að bregðast við því vonleysi sem ríkir hjá fólki um réttlátara samfélag áður en í meira óefni er komið. Grasrótin þarf næringu og fjármagn til forvarna. Kallað er eftir slíkri stefnuskrá hjá framboðum sem vilja hafa áhrif í þágu heimila í landinu.
Helga Margrét Guðmundsdóttir,
tómstunda- og félagsmálafræðingur