Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Börnin mikilvægust
Laugardagur 24. apríl 2021 kl. 07:19

Börnin mikilvægust

Þegar verið var að móta stefnu Reykjanesbæjar til ársins 2030 var lögð rík áhersla á að börn væru sett í fyrsta sæti. Sveitarfélagið ákvað á þeirri stundu að leggja höfuðáherslu á að styðja börn til þess að þau blómstri í fjölskyldum, skólum, íþróttum og tómstundum. Með stefnumótun sem þessari er svo ekki síður mikilvægt að henni fylgi skýr markmið og að gerð sé aðgerðaáætlun sem styður við að stefnan nái fram að ganga. Án aðgerða eru stefnur nefnilega orðin tóm. Nú þegar hafa ýmsar aðgerðir komið til framkvæmda, eru í fullum gangi eða undirbúningur þeirra á lokametrunum. Þar má m.a. nefna bættar almenningssamgöngur, hækkun hvatagreiðslna, samþætting skóla-, íþrótta- og tómstundastarfs, vinna við að auka þátttöku barna og ungmenna í íþrótta- og tómstundastarfi, verkefnið Allir með! sem stuðlar að aukinni vellíðan og eflir félagsfærni barna og styrkir alla sem vinna með börnum og undirbúningur fyrir frístundabíl sem mun fara af stað í haust. Þetta er alls ekki tæmandi upptalning á öllum þeim verkefnum sem unnin eru vítt og breitt í sveitarfélaginu heldur einungis til að leggja áherslu á að verkin eru svo sannarlega látin tala og að allt starfsfólk og stjórnendur sveitarfélagsins leggjast á eitt við að setja börnin okkar í fyrsta sæti.

Okkur gengur vel að undirbúa það að Reykjanesbær verði barnvænt sveitarfélag. Barnvæn sveitarfélög er verkfærakista og líkan sem styður við innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna inn í stjórnsýslu og starfsemi sveitarfélaga. Það er tveggja ára ferli sem hófst með undirritun samstarfssamnings við UNICEF þann 25. júní 2020. Það að Reykjanesbær verði barnvænt sveitarfélag þýðir að við höfum samþykkt að nota Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem viðmið í starfi og að forsendur sáttmálans verði rauði þráðurinn í starfsemi Reykjanesbæjar. Starfsmönnum og stjórnmálamönnum sveitarfélagsins ber að skoða alla verkferla og að taka ákvarðanir með hliðsjón af sáttmálanum og með tilliti til barna í sveitarfélaginu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Að lokum má nefna undirbúningsvinnu sem farin er af stað til að vinna samkvæmt lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna en lögin munu taka gildi 1. janúar 2022. Lögin ná til þjónustu sem veitt er bæði á vettvangi ríkis og sveitarfélaga, m.a. innan alls skólakerfisins, heilbrigðiskerfisins, félagsþjónustu innan sveitarfélaga og verkefna lögreglu. Eins bera aðrir sem vinna með börnum, s.s. í íþrótta- og tómstundastarfi, líka skyldur og taka þátt í samþættingu þjónustunnar. Starfsmenn sveitarfélagsins eru í óða önn að undirbúa þær breytingar sem frumvarpið felur í sér. Verið er að draga fram alla þjónustuþætti sem varða farsæld barna í þjónustu Reykjanesbæjar, flokka þá og skilgreina hvaða þættir falla undir hvert þjónustustig líkt og þau eru skilgreind í frumvarpinu.

Með þessum aðgerðum eru börnin sett í fyrsta sæti og við sem samfélag að forgangsraða í átt að barnvænu sveitarfélagi þar sem börnin eru svo sannarlega mikilvægust.

Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir,
formaður velferðarráðs og vara-bæjarfulltrúi Framsóknar í Reykjanesbæ.