Borgaraleg ferming á Suðurnesjum
Jóhann Björnsson, formaður Siðmenntar, skrifar.
Það var ánægjulegt að fylgjast með 14 unglingum taka þátt í fyrstu borgaralegu fermingunni í mínum gamla heimabæ, Reykjanesbæ þann 18. apríl sl. Athöfnin fór fram að viðstöddu fjölmenni í sal Fjölbrautaskólans.
Í kjölfar athafnarinnar hafa margir spurt hvað borgaraleg ferming sé? Fyrsta borgaralega fermingin fór fram hér á landi árið 1989 þegar sextán börn fermdust. Í ár eru þau 305. Borgaralegar fermingar tíðkast víðar en á Íslandi og eru sérstaklega vinsælar í Noregi. Þar fór fyrsta borgaralega fermingin fram árið 1951 og var þá Gro Harlem Bruntland, fyrrverandi forstætisráðherra Noregs, á meðal fermingarbarna. Tilgangur borgaralegrar fermingar er meðal annars að efla heilbrigð og farsæl viðhorf unglinga til lífsins með uppbyggilegri fræðslu. Á fermingarnámskeiðunum er megináhersla lögð á að efla umhugsunarvirkni barnanna með því að þjálfa gagnrýna hugsun og þátttöku í heimspekilegum samræðum þar sem meðal annars er tekist á við ýmis siðferðileg álitamál.
Eins og annars staðar þar sem borgaralegar fermingar tíðkast er orðið ferming notað enda hefur orðið ýmsar merkingar. Ein merking orðsins felst í að styðja og styrkja og er litið svo á að með borgaralegri fermingu sé verið að styðja og styrkja unga fólkið í að verða heilsteyptir og ábyrgir borgarar í lýðræðislegu samfélagi.
Félagið Siðmennt stendur fyrir borgaralegum fermingum og geta öll ungmenni tekið þátt burtséð frá trúar- eða lífsskoðunum.
Jóhann Björnsson
formaður Siðmenntar