Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Bókasafn verði opnað sem fyrst á hentugum stað í Garðinum
Ritstjórn
Ritstjórn skrifar
sunnudaginn 4. ágúst 2019 kl. 06:12

Bókasafn verði opnað sem fyrst á hentugum stað í Garðinum

Garði Suðurnejabæ 20. júlí 2019
Til bæjarstjórnar Suðurnesjabæjar Afrit sent til staðarblaða

Við undirrituð hörmum þá ákvörðun bæjarráðs Suðurnesjabæjar að loka bókasafninu í Garði.

Hér í Garðinum hefur verið starfrækt bókasafn allt frá árinu 1932 þegar Ungmennafélagið Garðar var stofnað og beitti sér m.a. fyrir stofnun almenningsbókasafns sem var til húsa í Sjólyst undir stjórn Unu Guðmundsdóttur.

Þeir Garðbúar sem eldri eru hafa því ekki þekkt annað en að geta sótt sér bækur í göngufæri við heimili sín.
Bæjarráð hefur bent á að þetta sé tímabundin lokun og fólki er sagt að það geti notað safnið í Sandgerði en þangað eru um 12 km akstur fram og til baka sem gera 500 km á ári fyrir þá sem mundu halda áfram að sækja sér bækur reglulega. Auk kostnaðar við aksturinn er þetta ó-umhverfisvænt og íþyngjandi fyrir þá viðskiptavini bókasafnsins sem búa í Garðinum.

Þessi ráðstöfun gerir þeim sem hafa nýtt sér safnið, erfitt fyrir og má þar nefna þau börn sem sækja sér bækur utan skólatíma, foreldra ungra barna sem hafa átt gæðastundir á safninu með litlu börnunum sínum og fólk á öllum aldri sem kemur reglulega í safnið vegna áhuga á bóklestri.

Vitað er að margir viðskiptavinir bókaafnsins í Garði eru eldriborgarar og er lokunin mikil skerðing á lífsgæðum þessa hóps þar sem bóklestur er ein helsta afþreying þeirra sem hafa nægan tíma til að lesa sér til ánægju og gagns.

Við höfum skynjað velvilja bæjaryfirvalda til eldri borgara hingað til, en nú er að þeim hópi vegið að okkar mati. það er eindregin ósk okkar að bókasafn verði opnað sem fyrst á hentugum stað í Garðinum. Hvenær megum við eiga von á að svo verði?

Með kveðju og ósk um jákvæð viðbrögð bæjaryfirvalda.

Áhugafólk um opið bókasafn í Garðinum,
Erna M. Sveinbjarnardóttir, 
Hrafn A. Harðarson, 
Kristjana H. Kjartansdóttir,
Kristjana Þ. Vilhjálmsdóttir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024