Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Björgvin Arnar Atlason - kveðja
Laugardagur 14. september 2013 kl. 11:20

Björgvin Arnar Atlason - kveðja

„Þegar þú ert sorgmæddur, skoðaðu þá aftur huga þinn og þú munt sjá að þú grætur vegna þess sem var gleði þín“ ( Kahlil Gibran).

Elskulegur vinur okkar Björgvin Arnar lést mánudaginn 26.ágúst.  Við kveðjum þennan litla vin með söknuði. Það má með sanni segja að perlan okkar hann Björgvin Arnar hafi verið sönn hetja í baráttu sinni við illvígan sjúkdóm.  Björgvin Arnar kenndi okkur mikið hér á Holti hann var einstakur og tók á móti erfiðleikum sínum með æðruleysi og sýndi ótrúlegan styrk á erfiðum tímum.  Hans aðalsmerki voru ró, gleði og þolinmæði og einstakt að sjá hversu auðvellt hann átti með að eiga samskipti bæði við börn og fullorðna, allir voru vinir hans.  

Eftir að Björgvin Arnar lést áttum við kennarar góða stund með börnunum sem útskrifuðust með honum frá leikskólanum Holti.  Börnin spjölluðu um þær  góðu minningar sem þau áttu af Björgvini vini sínum og teiknuðu myndir frá tíma þeirra saman hér á Holti.  Þau teiknuðu glaðlegar myndir af Björgvini Arnari í íþróttaálfabúningnum sínum og hjörtu þar sem tilfinningar barnanna og væntumþykja komu berlega í ljós.   Þetta var hugljúf sorgarstund með dýrmætum gullmolum. Við kennarar á Holti erum þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast og taka þátt í uppeldi þessa litla vinar.    

Við þökkum foreldrum, ömmu og afa frábært samstarf, Björgvin var heppinn að eiga ykkur að.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi
hin ljúfu og hljóðu kynni af alhug þakka hér,
þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi
og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.

(Ingibjörg Sig.).


Við sendum foreldrum, ömmu og afa og öðrum aðstandendum okkar innilegustu samúðarkveðjur.  Guð gefi ykkur styrk á erfiðum tímum.

Með kveðju frá leikskólanum Holti

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024