Björgum sundhöllinni
Pabbi kenndi mörgum að synda í lauginni og hef ég heyrt margar fallegar sögur í gegnum tíðina af fólki sem var honum mjög þakklátt fyrir hans starf í sundlauginni. Mínar minningar eru mismerkilegar frá húsinu, fjölskyldustundirnar sem við áttum í lauginni eru dýrmætar, síðan var það klórlyktin þegar maður labbaði inn, litli klefinn þar sem afgreiðslukonurnar sátu, man ekki annað en að þær hafi allar verið yndislegar. Gangan niður litla ganginn, þeir sem voru hávaxnir þurftu að beygja sig, skóhillan sem geymdi skóna, bekkurinn, allt svo lítið og þröngt en notalegt. Klefinn með tréklefunum, hver átti sitt uppáhaldsnúmer, maður stækkaði „upp í spegilinn“ fyrst stóð maður upp á bekknum til að sjá í speglinum en svo stækkaði maður og þurfti þess ekki til að sjá spegilmynd sína. Klósettið og hlandlyktin, maður þurfti að tipla yfir klósettpappírinn sem lá á gólfinu, sturturnar, ein var best og maður var heppin ef maður náði henni. Maður setti handklæðið í hilluna og lagði bláu sápuna með. Stundum þurftu starfsstúlkurnar að safna bláu sápunum úr niðurfallinu, þar sem það var að stíflast. Stiginn upp laugina, þurftum að standa þar í röð þegar við vorum í skólasundi, áður en okkur var hleypt inn, þá var manni kalt. Tilfinningin að fara ofan í ískalda laugina, blanda af unaði og hrolli. Kafa eftir steinum, stinga sér, ærslast og hafa gaman. Síðan komu ljósalamparnir sem voru afar vinsælir, og heitu pottarnir, það var stórkostlegt. Svörtu kútarnir, kvennatímarnir og gufan, hún var nú smá hræðileg, var draugur þar eða ekki? Sundmótin, þar sem áhorfendapallarnir voru troðnir og þá var nú heitt í húsinu, skólasundið, sundæfingarnar, stemmingin í leiksundinu og síðan afslöppunin í kvennatímanum.
Auðvitað getum við ekki náð þessari sundlaugastemmingu aftur hún var einstök, hleypt „oní“ í hollum, milli fjögur og sex, rekið upp úr reglulega til að koma fleirum að „Allir með grænar teygjur upp úr!“ Stundum stalst maður aftur í röðina til að komast sem fyrst ofan í aftur. Og vellíðanin þegar maður labbaði heim eftir góða sundferð með blautt hárið og roða í kinnum.
Húsið má ekki rífa, að mínu mati er það synd, að missa þetta sögulegt hús, hús með sál og sögu. Það er svo margt hægt að gera þarna, það þarf ekki endilega að setja vatn í laugina. Möguleikarnir eru margir en ég vildi óska að ef þetta getur ekki orðið aftur sundlaug þá gæti Íþróttaminjasafn Reykjanesbæjar fengi heimili þarna. Í dag eru munir safnsins til sýnis í anddyri Sundmiðstöðvar Keflavíkur og einhverjir í minjasafninu held ég, en við gætum gert svo miklu meira úr því og lagt metnað í að gera því hærra undir höfði, enda efniviður mikill, íþróttasagan er mikil og stór. Ég sé fyrir mér skemmtilegt safn með góðu kaffihúsi. Væri ekki notalegt að „setjast í heitu pottana“ eftir að hafa farið um húsið og skoðað íþróttasöguna, inn í þessu sögulega húsi, horfa út á hafið með góðan kaffibolla í hönd, njóta „hafgolunnar“ vel mettur af sögunni, íþróttasögunni. Ég geri mér grein fyrir að þetta kostar peninga og ég hef enga lausn á því, en læt mig dreyma.
Guðrún Guðmundsdóttir