Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Þriðjudagur 19. febrúar 2002 kl. 08:47

Bjarta framtíð fyrir Reykjanesbæ

Á laugardag fer fram opið prófkjör Samfylkingarinnar fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í vor. Bæjarbúar í Reykjanesbæ geta tekið þátt í prófkjörinu og valið fólk til starfa í þágu heildarinnar.
Ég gef kost á mér til þjónustu fyrir bæjarbúa. Markmiðið með framboði mínu er að taka virkari þátt í mótun samfélagsins til hagsbóta fyrir einstaklinga og fjölskyldur í Reykjanesbæ.Reykjanesbær þarf á því að halda að skapa betra mannlíf fyrir alla. Það viðhorf þarf að ríkja að það sé eðlilegt að verðlauna þann sem setur sér háleitt markmið og nær því. Þetta á bæði við um einstaklinga og fyrirtæki, vímuefnaneytandann sem tekst á við sitt vandamál og skapar sér nýtt og betra líf sem og fyrirtækið sem nær árangri í sinni starfsemi. Við eigum að viðurkenna góða frammistöðu í félagsstarfi, menningu og íþróttum.
Ég legg áherslu á að stofnanir sem reknar eru af Reykjanesbæ fái aukið sjálfstæði og axli um leið aukna ábyrgð á þeirri þjónustu sem þeim er ætlað að veita. Tryggð verði hagkvæmni í rekstri um leið og þjónusta við íbúana verður betri með minni tilkostnaði.
Aldrei má missa sjónar á þeirri hugsjón að opinber þjónusta er til fyrir fólkið, félagslegt öryggi þess og jafnrétti. Velferðarkerfið er ekki til að hagnast á því í eiginhagsmunaskyni.
Skapa þarf fleiri störf og auka framleiðni í einkageiranum, því þannig getum við útvegað fé til að bæta þjónustu og þróa samfélagið. Reykjanesbær á að geta boðið umgjörð um öflugt atvinnulíf þar sem styrkleiki svæðisins, orkan og alþjóðaflugvöllurinn kemur til góða.
Skipulags- og umhverfismál í Reykjanesbæ verður að taka föstum tökum. Reykjanesbær þarf að geta boðið upp á kjöraðstæður fyrir nýsköpun félags- og atvinnulífs í umhverfisvænu samfélagi sem gerir það eftirsóknarvert að búa hér og starfa. Þess vegna sé ég bjarta framtíð fyrir Reykjanesbæ.
Fyrir þessu mun ég berjast og óska eftir stuðningi bæjarbúa til þess. Ég heiti á bæjarbúa að taka þátt í opnu prófkjöri Samfylkingarinnar. Það skiptir máli fyrir Reykjanesbæ að velja gott fólk til starfa í þágu heildarinnar.

Skúli Thoroddsen, lögfræðingur og forstöðumaður Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024