Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Bjart yfir bænum
Sunnudagur 7. september 2014 kl. 12:07

Bjart yfir bænum

Silja Dögg Gunnarsdóttir skrifar:

Þessa dagana stendur undirbúningur fyrir Ljósanótt sem hæst. Ungir sem aldnir taka virkan þátt. Listamenn og handverksfólk hefur fundið sér stað  í bænum til að sýna og selja sínar vörur og ég geri ráð fyrir því að hótel í bænum séu vel bókuð og hið sama má eflaust segja um matsölustaði. Hátíðin hefur fest sig í sessi hjá bæjarbúum og öðrum landsmönnum.

Langþráð stórverkefni í Helguvík

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Á sama tíma og menn gera sig klára fyrir hátíðahöldin þá berast góðar fréttir úr atvinnulífinu. Stórverkefnið, kísilver United Silicon í Helguvík, hefur loks lokið öllum undirbúningi. Lykilsamningar eru í höfn og búið að taka fyrstu skóflustunguna. Því ber að fagna. Forsvarsmenn fyrirtækisins segjast ætla að hefja framleiðslu vorið 2016 en fram að þeim tíma mun uppbygging kísilversins skapa um 300 störf á svæðinu og um 60 störf þegar verksmiðjan tekur til starfa. Það er full ástæða til að trúa því að framundan sé betri tíð.

Bjartsýni í stað svartsýni

Góðar fréttir berast einnig úr ríkisfjármálum en segja má að ótrúleg umskipti hafi orðið í efnahags- og atvinnulífi hér á aðeins einu ári, síðan ríkisstjórn Sigmundar Davíðs tók við stjórn landsins. Hagvöxtur er nú með því mesta sem þekkist, atvinnuleysi minna en víðast hvar, verðbólga sambærileg við það sem er í nágrannalöndum okkar (lægri en í Noregi), viðskiptajöfnuður jákvæður, rekstur ríkissjóðs jákvæður og erlendir aðilar sýna fjárfestingum hér mikinn áhuga. Bjartsýni hefur tekið við af svartsýni og eymdarvísitalan hefur ekki verið lægri síðan 2007. Það má einnig geta þess að atvinnuleysi á Suðurnesjum fyrir ári síðan var 5,4% en er nú komið niður í 4,2%.

Auknar fjárfestingar

Að mati Arion banka verður hagvöxtur á þessu ári drifinn áfram af fjárfestingu og einkaneyslu og er fjárfestingin að koma þarna inn eftir nokkuð langa fjarveru. Að mati stjórnenda í atvinnulífinu munu fjárfestingar aukast á árinu, einkum í byggingastarfsemi, flutningum og ferðaþjónustu. Á leiðinni eru mörg fjárfestingaverkefni sem virðast af viðráðanlegri stærð og útlit er fyrir að fjárfesting muni almennt aukast meðal smærri fyrirtækja.

Við þurftum öll á þessari upplyftingu að halda. Ég er sannfærð um að framundan séu góðir tímar. Þjóðarskútan siglir loks í rétta átt en þó eru mörg stór og krefjandi verkefni framundan.
Sjáumst á Ljósanótt!

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins