Birtið skýrslu endurskoðendanna
Bókun meirihluta sjálfstæðismanna í bæjarráði Reykjanesbæjar og birtist í Víkurfréttum í gær vakti óneitanlega athygli mína. Athygli vegna þess orðalags sem valið er og fjallar um hlut endurskoðendanna sem fengnir voru til að taka út þá samninga sem meirihlutinn hyggst nú þvinga í gegnum ráð bæjarins. Og sem ég og fleiri efasemdarmenn höfum haft grun um að væru ekki gerðir með hagsmuni bæjarins í huga, heldur fyrst og fremst fyrirtækisins Geysir Green Energy.
Bókun meirhlutans vekur þó hjá manni von, að ekki sé þetta nú jafnslæmt og maður hélt að það væri út frá þeim gögnum sem komið hafa fram. Og meirihlutinn hefur hér gullið tækifæri til að sannfæra þau okkar sem efins eru. Og það þarf nú lítið til. Þeir þurfa bara að birta þá skýrslu endurskoðendanna þar sem segir að „samningar þessir eru einstaklega góðir fyrir Reykjanesbæ” því slíkt orðalag hefur sennilega enginn séð áður í umsögn endurskoðenda sem fengnir eru til að fara yfir slíka samninga. Þeir reyna nú venjulega að hafa vaðið fyrir neðan sig, og sérstaklega núna í ljósi reynslu síðustu ára. Nú virðist boltinn vera hjá bæjarstjóra að slá í eitt skipti fyrir öll og birta endurskoðendaskýrsluna þar sem þetta stendur.
Með bestu kveðju
Hannes Friðriksson.