Betrun er hugarfar sem leiðir til góðs í mannlegri tilveru
Að undanförnu hafa eineltismál verið í umræðunni. Nýlega kom ung kona fram í sjónvarpinu og lýsti reynslu sinni og afleiðingum langvarandi eineltis sem hún varð fyrir. Fjölmargir aðrir hafa komið fram á undanförnum misserum og lýst reynslu sinni af því hvernig einelti fer fram, hvernig þolendum líður og hvað foreldrar og skólar geta gert í svona málum. Við höfum líka fræðst um rafrænt einelti. Slíkar frásagnir ættu að vera okkur öllum víti til varnaðar.
Vert er að vekja athygli á hugrekki þeirra sem stíga svona fram og benda á það sem betur má fara. Við þurfum að bregðast við slíkum upplýsingum á jákvæðan og uppbyggilegan hátt. Slíkt ætti að gefa fólki tækifæri til sátta og efla samkennd og náungakærleika sem er kannski það sem við þurfum mest á að halda í þeim þrengingum sem við nú upplifum í okkar samfélagi. Þjóðarsálin þarf að þora að sjá spegilmynd sína varðandi ýmis önnur mál en efnahagsmál og fjármálasvik.
Að undanförnu hefur farið fram mikil endurskoðun á gildismati. Við höfum viljað skoða siðferði okkar með stækkunargleri og viljað setja fram það sem betur má fara. Krafa um eftirlit fer vaxandi í samfélaginu. Við viljum nýtt og betra Ísland fyrir fólkið í landinu, fyrir börnin og framtíðina.
Nú þrengir að, margir hafa misst vinnuna og sumir eru mjög reiðir og vonlitlir. Samskipti geta verið viðkvæm og erfið í samfélagi okkar núna þegar við siglum í gegnum ólgusjó og tökumst á í þessu breytingaferli. Margir eiga um sárt að binda, finna meira fyrir kreppunni og berjast í bökkum með lífsnauðsynjar. Aðrir eru hræddir um að missa vinnuna og upplifa kvíða. Sumir eru líka vondaufir um framtíðina og finnst þá kannski afleiðingar ofbeldis eða eineltis ekki vera mál málanna.
Aðgát skal höfð í nærveru sálar og við þurfum að gæta þess að meiða ekki hvort annað eða særa af gáleysi. Hafi okkur orðið á er mikilvægt að bæta fyrir brot sín og ná sáttum. Hugtakið fyrirgefning er oft sett í trúarlegt samhengi en iðrun eða ásetningur um betrun er hugarfar sem leiðir til góðs í mannlegri tilveru og þakklæti er æðst allra dyggða er stundum sagt. Kannski það sé þá betra fyrir okkur að skoða hvað við höfum, en ekki hvað okkur vanti eða hverjum við getum kennt um.
Við megum heldur ekki blindast af reiði út í fólk eða aðstæður okkar. Við þurfum að þjálfa okkur í að hvetja hvert annað, hrósa og styrkja hið góða og það sem vel er gert. Við getum líka eflt nærsamfélagið, gefið okkur á tal við nágranna og haft meira samband við vini, brosað meira og látið gott af okkur leiða. Við þurfum nefnilega á hvort öðru að halda. Við þurfum að treysta á mannauðinn, þétta okkur saman og vera til staðar fyrir hvort annað. Það getum við t.d. gert í foreldrasamvinnu í skólum.
Mest um vert er að allir séu virkir, að við hugum að hvort öðru og sýnum náunganum kærleika. Við höfum öll verk að vinna þó ekki væri nema að bæta okkur sjálf og styrkja sambönd við okkar nánustu. Þá fyrst verða fjölskyldan og heimilin grunneiningin og sá hornsteinn sem samfélagið þarf á að halda.
Helga Margrét Guðmundsdóttir
verkefnastjóri hjá Heimili og skóla.