Betri staða bæjarsjóðs
Fyrir nokkrum dögum seldi Reykjanesbær skuldabréf sem bærinn fékk sem greiðslu á árinu 2009 við uppskiptingu Hitaveitu Suðurnesja í tvö fyrirtæki, HS Orku og HS Veitur. Staðfestir salan það sem forystumenn bæjarfélagsins hafa margoft sagt, - að eignastaðan sé sterk og þannig sé tækifæri til að losa um eignir í þeim tilgangi að greiða skuldir. Í umræðu undanfarna daga hafa komið upp spurningar um verðmæti bréfsins, söluverðið, ráðstöfun þess og fleira sem ég vil leitast við að svara í stuttu máli.
Söluverðið
Skuldabréfið, sem var upphaflega að verðmæti tæplega 6,3 milljarðar króna bar 3,5% fasta ársvexti sem greiddir hafa verið til okkar árlega auk vísitölu sem tengd var við hækkun álverðs. Bréfið átti að greiðast til Reykjanesbæjar í einu lagi á árinu 2016.
Söluverð bréfsins nú er skráð 6,3 milljarðar króna eins og upphaflegt verðmæti þess er og greiðist þannig að 3,5 milljarðar komu í peningum strax, 500 milljónir í markaðsbréfum sem við munum selja síðar á þessu ári og 2,3 milljarðar greiðast á árunum 2016-2017. Verði hækkun á verði áls fram til ársins 2016 mun sú hækkun skila sér í hærra verði á bréfinu til bæjarins þá, á sama hátt og hefði gerst í upphaflega bréfinu. Reykjanesbær mun því ekki verða af neinum verðmætum eða tækifærum sem upphaflega bréfið gáfu.
Ráðstöfun greiðslunnar
Eðlilega hafa margir bæjarbúar velt fyrir sér hvernig söluandvirði bréfsins hafi verið ráðstafað. Í stórum dráttum hefur það verið með eftirfarandi hætti:
• 870 milljónir fara til niðurgreiðslu á skuldum Reykjaneshafnar
• 750 milljónir fóru í uppgreiðslu á eina erlenda láni bæjarsjóðs sem þar með er uppgreitt
• 460 milljónir fóru til greiðslu á skammtímalánum í Landsbanka og Íslandsbanka
• 740 milljónir fara í uppgjör við Fasteign vegna leigu og samkomulags um Hljómahöllina. Um leið lækka leigugreiðslur til framtíðar og skuldbindingar Reykjanesbæjar lækka um rúmlega 3 milljarða króna. Reykjanesbær mun standa fyrir íbúafundi á næstu vikum til að kynna betur niðurstöðu samninga við Eignarhaldsfélagið Fasteign þegar þeir liggja fyrir
• 455 milljónir fóru í greiðslu á afborgunum lána og greiðslu skammtímakrafna. Allar skammtímakröfur eru þar með uppgreiddar
• 105 milljónir fóru í greiðslu á framkvæmdum við nýtt hjúkrunarheimili
Öllu andvirði bréfsins hefur því verið varið til greiðslu skulda.
Skuldastaða bæjarsjóðs eftir söluna
Með þessu hefur skuldastaða bæjarsjóðs breyst verulega og skuldar bæjarsjóður nú um 4,5 milljarða króna hjá bönkum og lánastofnunum (50-60% skuldahlutfall). Vangaveltur oddvita Samfylkingarinnar í síðasta blaði Víkurfrétta um hvort Reykjanesbær væri skuldlaus eru því ekki tímabærar enn um sinn þó vissulega hafi skuldir lækkað mikið. Nær allar skuldir bæjarsjóðs í dag eru þess eðlis að þær verða ekki greiddar meira niður nema í samræmi við lánasamninga. Uppgreiðsla þeirra er í mörgum tilfellum óheimil.
Til viðbótar við lán bæjarins eru framtíðarleigugreiðslur og lífeyrissjóðsgreiðslur bæjarins framreiknaðar og skráðar sem skuldbindingar bæjarsjóðs. Þarna er ekki um venjulegar skuldir að ræða sem unnt væri að greiða upp heldur hluta af árlegum rekstrarkostnaði bæjarins. Framreiknað til næstu áratuga er þessi rekstrarkostnaður áætlaður sem skuldbinding bæjarins að upphæð 14 milljarða króna. Með þessum framreikningi verður skuldahlutfall bæjarins um 240%.
Næstu verkefni - Reykjaneshöfn
Þó staða bæjarsjóðs sé komin í góð mál eru enn óleyst mál varðandi skuldastöðu Reykjaneshafnar. Höfnin skuldar eftir síðustu breytingar um 4,5 milljaða króna. Þær skuldir munu reynast þungbærar á meðan atvinnuverkefni í Helguvík eru ekki komin í höfn svo sem álver og kísilver og á meðan ríkisvaldið neitar að greiða hlut sinn í framkvæmdum hafnarinnar eins og ríkið hefur gert í öllum öðrum stórskipahöfnum á landinu. Að þessu vinnur bæjarstjórn nú af krafti.
Böðvar Jónsson
Höfundur er bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og forseti bæjarstjórnar