Betri heilbrigðiskerfi með VG
Síðustu fjögur árin hefur Vinstrihreyfingin - grænt framboð háð varnarbaráttu fyrir grunnstoðir samfélagsins. Þurft hefur að stoppa í 270 milljarða fjárlagagat og halda um leið á floti kerfum eins og heilbrigðiskerfi sem á árunum fyrir hrun höfðu lent í stöðugum niðurskurði. Nú er búið að ná tökum á ríkisfjármálum án þess að selja eignir eða ganga um of á auðlindir landsins og því kominn tími til að byggja upp. Það er mikilvægt að Vinstrihreyfingin - grænt framboð fái tækifæri til að koma að þeirri uppbyggingu.
Grunnstoðir samfélagsins eins og heilbrigðiskerfi eru grundvallaratriði í stefnu Vinstri grænna. Vinstri græn vilja snúa frá þeirri stefnu sem mörkuð var fyrir hrun að þeir sem eru veikir borgi fyrir þjónustuna. Vinstri græn vilja að heilbrigðiskerfið verði að fullu greitt með skattfé og þannig verði komugjöld og ýmis önnur gjöld sem komið hefur verið á sjúklinga smátt og smátt afnumin. Heilsugæslan á að vera fyrsti viðkomustaður fólks með heilsuvanda. Heilsugæslan er misvel í stakk búin til að mæta því verkefni, sérfræðingavæðing á höfuðborgarsvæðinu með áherslu á einkarekstur hefur gert henni erfitt fyrir.
En auðvitað kostar þetta allt peninga. Til þess að ná þessum markmiðum þarf bæði að endurskoða grundvöll núverandi kerfis og bæta í það fjármunum. Það þarf að styrkja grunnþjónustuna og fyrirbyggjandi fræðslu og aðstoð með það að markmiði að minnka álag á sérfræðinga innan heilbrigðiskerfisins. Landið á að vera eitt heilbrigðisumdæmi, sjúkraskrár samræmdar og um allt land þarf að liggja þétt net opinberrar heilbrigðisþjónustu. Slík endurskoðun tekur tíma og orku, þannig að um hana ríki sátt milli stjórnvalda, notenda, starfsmanna og samtaka notenda. Lykilatriði Vinstri grænna er að úrræði sem rekin eru án gróðasjónarmiða séu efld. Markmið Vinstri grænna er skýrt og þá er leiðin greiðari.
Í dag berast stöðugar fregnir í fjölmiðlum af veiku fólki sem fær ekki þá lágmarksþjónustu sem bundin er í lögum. Þetta er alvarlegt mál fyrir samfélagið allt og ljóst er að huga verður sérstaklega að heilbrigðiskerfinu á næsta kjörtímabili. Vinstri græn stefna að því að stytta biðlista í heilbrigðiskerfinu öllu. Það verður best gert með auknu fjármagni til heilbrigðismála, bættri aðstöðu og opinberri heilbrigðisþjónustu sem veitir jafnan rétt allra til þjónustu óháð efnahag. Þetta á við um alla þjónustu, jafnt klíníska sem og að búa sjúklingum þá umgjörð sem þeir þurfa á að halda.
Vinstri græn hafa lagt mikla áherslu á að fjárveitingar til heilbrigðis- og velferðarmála verði í forgangi nú þegar uppbygging nýs samfélags er að hefjast eftir Hrunið. Á fjárlögum yfirstandandi árs tókst í fyrsta sinn frá Hruni að auka við fjárveitingar til heilbrigðismála og því munu Vinstri græn halda áfram. Það er forgangsmál hjá Vinstri grænum að auka fjármagn til velferðarmála á næstu árum. Á landsfundi Vinstri grænna nú nýlega var ályktað um að geðheilbrigðisstefna ætti að vera eitt af forgangsmálum heilbrigðisþjónustunnar.
Meðan hið svokallaða góðæri stóð yfir létu stjórnvöld heilbrigðiskerfinu blæða. Ýtt var undir einkarekstur, oft án skuldbindinga um þjónustu. Velferðarmál mættu afgangi á kostnað stórkarlalegra lausna sérhagsmunaafla. Nú liggur fyrir ein mesta uppbygging í heilbrigðismálum þjóðarinnar á síðari tímum. Sú uppbygging þarf að vera á vegum opinberra aðila, þannig er tryggt að allir hafi aðgengi að þjónustunni óháð efnahag eða félagslegri stöðu.
Arndís Soffía Sigurðardóttir, lögfræðingur og varaþingmaður skipar 1. sæti á lista Vg í Suðurkjördæmi
Inga Sigrún Atladóttir, guðfræðingur og bæjarfulltrúi, skipar 2. sæti á lista Vg í Suðurkjördæmi