Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Bestu ár ævi okkar
Sunnudagur 16. febrúar 2014 kl. 11:53

Bestu ár ævi okkar

Elva Dögg formaður NFS skrifar

Frá því að ég byrjaði að starfa fyrir nemendafélagið hefur það verið mitt helsta markmið að bæta andann í skólanum, þ.e. að bæta andrúmsloftið hjá nemendum skólans og fá þá til þess að vera virkari í félagsstarfinu. Á þessari önn höfum við í kringum 900 nemendur og tæplega 45 þeirra starfa í nemendafélaginu sem er töluverð bæting frá fyrri árum. En það er samt eitthvað sem er ekki alveg að smella, það vantar svo mikla hugarfarsbreytingu hjá langflestum nemendum skólans. Að þora að fara út fyrir þægindahringinn og prófa að gera eitthvað sem þú hefur aldrei gert áður er það sem margir eiga erfitt með að tileinka sér.
Ég hóf framhaldsskólagönguna í allt öðrum skóla í Reykjavík í hrikalega öflugu félagslífi og var þar í eitt og hálft ár en ákvað svo að koma heim til Keflavíkur, því heima er jú best. Það má segja að ég hafi fengið hálfgert „menningarsjokk“ þegar ég kom í FS. Það voru gjörsamlega allir að bíða eftir því að dagurinn væri búinn svo þeir gætu drifið sig heim að leggja sig. Fæstum fannst skemmtilegt í skólanum og fáir höfðu yfir höfuð áhuga á því að vera þarna. Mér fór að leiðast frekar mikið líka en svo sá ég auglýsingu þar sem óskað var eftir fólki í árshátíðarnefnd svo ég ákvað að bjóða fram krafta mína. Þá breyttist skólalífið hjá mér til muna, það varð miklu skemmtilegra að hafa eitthvað upplífgandi fyrir stafni í skólanum og viti menn, það er ekki einu sinni liðið ár síðan og núna er ég allt í einu orðin formaður nemendafélagsins, eitthvað sem ég ætlaði mér bara alls ekkert að verða.

Ég skil elstu nemendurna sem hafa tekið sér pásu og eru að byrja aftur eftir nokkur ár og eru ekki alveg að nenna að taka þátt í félagslífinu með litlu systur sem er 6 árum yngri. En ég skil ekki þá sem eru að klára skólann á fjórum árum og segja að þeir nenni ekki að taka þátt þar sem þetta er hvort sem er síðasta önnin þeirra....já ertu ekki að átta þig á því að þetta er síðasta önnin þín? Þetta eru síðustu mánuðirnir þínir áður en alvaran hefst, þetta eru einmitt síðustu mánuðirnir til þess að gera alls konar hluti sem þú ert líklega ekki að fara að gera á næstu árum. Á þessum tímum leyfist þér að gera ýmislegt sem ekki væri samþykkt af samfélaginu ef þú væri orðinn eldri, þetta eiga að kallast bestu ár ævi okkar, gerum þau best! Við erum ekki að fara í skíðaferð á Akureyri með 50 krökkum, fara á klikkað raveball eða raka af okkur allt hárið á góðgerðardegi eftir 5 ár, við erum að fara að gera það núna, akkurat NÚNA, þetta er rétti tíminn til þess að gera alls konar vitleysu áður en við verðum fullorðin, við höfum svo óteljandi ár til þess að vera fullorðin og leiðinleg, þannig að mér finnst að við ættum að nýta tímann mun betur en við gerum.
Ég ætla alla vega að leggja mig alla fram við að gera þessa önn hrikalega eftirminnilega og njóta síðustu mánaðanna á framhaldsskólagöngu minni vel og ég óska þess innilega að þið gerið það líka!

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Elva Dögg Sigurðardóttir
Formaður Nemendafélags Fjölbrautaskóla Suðurnesja