Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Bergmál stöðnunar
Miðvikudagur 10. mars 2010 kl. 09:47

Bergmál stöðnunar

Bergur Sigurðsson, framkvæmdastjóri þingflokks VG og fyrrverandi framkvæmdastjóri Landverndar skrifar grein í Víkurfréttir og kveinkar sér mjög undan fundi um atvinnumál hér í Garðinum sl. fimmtudag. Honum virðist svíða að talað var um andstæðinga atvinnuuppbyggingar og fólk sem færi með rangt mál varðandi orkuvinnslumöguleika á SV-horni Íslands.


Á umræddum fundi kom m.a. fram að andstæðingar atvinnuuppbyggingar hafa haldið á lofti linnulitlum áróðri um að ef álver rísi í Helguvík, sé engin orka til í nein önnur verkefni. Þessi áróður er ósannur og rökstuddur með villandi framsetningu gagna. Óhróðursherferðin hefur þó skilað nokkrum árangri fyrir málstað andstæðinganna. Hún hefur valdið því að sumar sveitarstjórnir og leyfisveitendur hafa fyllst áhyggjum af því að sú orka sem fólgin er í jarðhita og vatnsafli innan þeirra landamarka sé e.t.v. sú síðasta sem völ verður á. Ég ætla ekki í sjálfu sér að gagnrýna þá afstöðu sveitarstjórnarmanna enda eru þessar upplýsingar frá aðilum sem gefa sig út fyrir að búa yfir kunnáttu um orkumál. Ég leyfi mér hins vegar að gagnrýna harðlega þá sem setja fram rangfærslur, hvort sem í hlut eiga stjórnmálamenn eða þeir sem koma fram í nafni sérkunnáttu sinnar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Bergur virðist greinilega taka það til sín að vera andstæðingur atvinnuuppbyggingar. Honum sárnar ennfremur að Ágúst Hafberg hjá Norðuráli vakti athygli á því að andstæðingar atvinnuuppbyggingar mæta yfirleitt ekki á opna fundi eða kynningarfundi um atvinnumál.


Bergi vil ég þó hrósa fyrir að hafa mætt á áðurnefndan fund. Mér þykir þó verst að hann hafi ekki nýtt tækifærið á fundinum líkt og margir fundarmenn gerðu, að koma með athugasemd eða spyrja spurninga og hafa þannig áhrif á umræður. Bergur valdi frekar að bölva í hljóði og skrifa grein í Víkurfréttir.

Umrædd grein er svo rúsínan í pylsuendanum. Þar reynir Bergur færa rök fyrir því að það sé bara engin orka til, ekki einu sinni fyrir álverið í Helguvík. Hann beitir hefðbundinni aðferð: Fjarstæðukenndum rangfærslum. Í fyrsta lagi reiknar hann með því að honum og félögum hans takist að stöðva nánast allar framkvæmdir sem nefndar hafa verið. Það liggur nú svo sem í augum uppi að ef það tekst, verður engin uppbygging í orkuvinnslu eða orkufrekum iðnaði á Íslandi, hvorki áliðnaði né öðru.


Það getur varla verið að það sé það sem Bergur vill?


Í öðru lagi leggst Bergur í mikla útreikninga og gefur sér forsendur. Hann heldur því fram að „samkvæmt forsendum Century“ (og vitnar í heimasíðu Norðuráls) séu 760 MW virkjanleg í Þjórsá. Þessar uppl fann ég nú ekki á heimasíðu Norðuráls né annars staðar.


Í Þjórsá eru 3 kostir sem telja má fýsilega. Neðri Þjórsá, sem gefur 265 MW, Búðarháls sem gefur um 80 MW og Norðlingaölduveita sem gæti aukið framleiðslugetu annarra virkjana í Þjórsá um 80 MW. Í máli Ágústs Hafberg á fundinum á fimmtudaginn taldi hann reyndar ekki með orkuna frá Búðarhálsi því hún er frátekin í annað ágætt verkefni hjá kollegum hans hjá ÍSAL. Þetta eru samtals 345 til 425 MW. Þessar tölur ætti Bergur að þekkja ágætlega og hlaut því að vita að hann færi með rangt mál. Hann valdi hins vegar að setja fram rangar tölur og fullyrða að uppruni þeirra væri frá Norðuráli. Tölur hans eru því samsuða sem ekkert mark er á takandi og ég ætla ekki að eyða fleiri orðum í þau. Þeir sem vilja kynna sér málið geta lesið stutta samantekt síðan í október á vefsíðu Norðuráls.


Á fundinum í Garðinum á fimmtudaginn voru allir sammála um hvað þurfi að gera til að koma hjólum atvinnulífsins á svæðinu af stað. Allir verða að snúa bökum saman og leysa málin. Samræma þarf aðgerðir, fara yfir hagsmuni hlutaðeigandi aðila og ná samstöðu. Allir sem hafa kynnt sér málin frá öllum hliðum sjá að það er vel framkvæmanlegt. Ein hindrunin í vegi þess er hins vegar hópur andstæðinga atvinnuuppbyggingar sem telur sér heimilt að bregða fæti fyrir öll bjargráð. Fái þessi hópur að ráða ferðinni er hætta á að kyrrstaða og hnignun einkenni íslenskt samfélag um langa framtíð.

Við Suðurnesjamenn segjum hingað og ekki lengra!

Einar Jón Pálsson
Bæjarfulltrúi Garði