Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

  • Bein eða blönduð leið?
  • Bein eða blönduð leið?
Laugardagur 22. nóvember 2014 kl. 10:14

Bein eða blönduð leið?

- Margeir Vilhjálmsson skrifar.

Í síðasta tölublaði Víkurfrétta var birt grein sem ég ritaði undir fyrirsögninni „Gott nafn á glataðri áætlun“. Greinin var sú fyrsta í ritröð um skuldavanda Reykjanesbæjar. Við skrifin er stuðst við skýrslu Haraldar Líndal „Úttekt á rekstri Reykjanesbæjar og tilllögur“ og ársreikninga Reykjanesbæjar sem birtir eru á heimasíðu sveitarfélagsins.

Blandaða leiðin
Síðasta helgi var ekki liðin þegar ég hafði eignast tvo pennavini á vef Víkurfrétta (www.vf.is).  Við þá hef ég þetta að segja:

Ég er hjartanlega sammála ykkur. Ef hlustað hefði verið á viðvörunarorð Guðbrands Einarssonar þegar hann sat í minnihluta í bæjarstjórn Reykjanesbæjar, þá væri staðan betri en hún er í dag. Ef meirihlutinn hefði líka hlustað á Ólaf Thordersen, þá væri staðan líklega ennþá betri. Það var ekki hlustað og það er miður. Nú er nýr meirihluti er við völd. Meirihluti sem þið styðjið. Nýi meirihlutinn eins og sá gamli verður að þola gagnrýni. Jafnvel þó hún komi frá Reykjavík. Ég vona innilega að hinn nýji meirihluti sem lofaði nýrri sýn í síðustu kosningum geri betur en sá gamli. Sérstaklega að hann hlusti betur á viðvörunarorð annarra. Ykkur er velkomið að persónugera skrif ykkar en samhliða því skín í gegn að þið hafið ekkert til málanna að leggja. Blindað hatur á íhaldinu eða að níða af mér skóinn mun ekki gera neitt til að bæta skuldastöðu Reykjanesbæjar. Slík skrif segja meira um ykkur en mig. Það er lyginni líkast að fá á sama árinu að fylgjast með einum og sama manninum standa í forsvari fyrir verkfallsaðgerðum til að knýja á um launahækkanir og lesa svo greinaskrif þar sem hann réttlætir launalækkanir. Það hlýtur að flokkast undir að vera á blandaðri leið.

Beina leiðin
Reykjanesbær væri á góðu róli ef ekki væri fyrir tvo ofurþunga bagga sem á bænum hvíla.  Reykjaneshafnir og Eignarhaldsfélagið Fasteign. Í skýrslu Haraldar Líndal er ekki fjallað beint um Reykjaneshafnir að öðru leyti en því að lagt er til að rekstur svokallaðra B-hluta stofnana verði gerður sjálfbær.  

Reykjaneshafnir höfðu á árinu 2013 alls 220 mkr. í tekjur. Skuldirnar voru hinsvegar 7,3 milljarðar. Þar af 2,5 við aðalsjóð Reykjanesbæjar. Með því að losna við Reykjaneshafnir myndi skuldastaða Reykjanesbæjar lagast til mikilla muna. Í þessari einu B-hluta stofnun er að finna nærri þriðjung langtímaskulda Reykjanesbæjar við lánastofnanir. Meðan skuldahlutfall Reykjanesbæjar er 273%, er skuldahlutfall Reykjaneshafna 3.318% (lesist: þrjúþúsund þrjúhundruð og átján prósent).

Fyrsta tillaga í skýrslu Haraldar Líndal er sú að kannað verði hversu raunhæfar kröfur aðalsjóðs á B-hluta stofnanir séu í raun. Þær kröfur sem ekki eru taldar innheimtanlegar, verði afskrifaðar.  Fara þarf með Reykjaneshafnir í nauðasamninga eða gjaldþrot. Sá aðili sem tilbúinn er að yfirtaka Reykjaneshafnir mun njóta ávöxtunar þegar atvinnulíf í Helguvík fer í fullan gang. Því miður hefur Reykjanesbær ekki efni á að halda þessu bákni úti nema til komi stórfelld niðurfærsla skulda.

Í skýrslu Haraldar Líndal segir orðrétt í umfjöllun um Eignarhaldsfélagið Fasteign: „Það hefur verið skoðun skýrsluhöfundar að gerð hafi verið mikil mistök með leigusamningum sem Eignarhaldsfélagið Fasteign hefur gert í nokkrum tilfella. Jafnframt verði að gera kröfu til þess þegar slík mistök eru gerð beri lánveitendur ekki síður ábyrgð en lántakendur. Í þessum orðum Haraldar Líndal er mergurinn málsins. Þeir sem munu og eiga að blæða fyrir bága skuldastöðu Reykjanesbæjar eru lánveitendurnir sem öðru nafni eru nefndir kröfuhafar. Hver sá sem lánar næstum gjaldþrota aðilum peninga á alltaf að gera sér fulla grein fyrir því að í því felst sú áhætta að geta ekki endurheimt skuldina að fullu.  

Bein leið er að Reykjanesbær taki á kröfuhöfum sínum af fullri hörku til að ná fram þeirri leiðréttingu skulda sem þarf til að koma sveitarfélaginu í rekstrarhæft ástand. Þar verða stóru sigrarnir unnir en ekki með því að þvinga launalækkunum á starfsfólk undir dulnefninu Blönduð leið.

Í næstu grein mun ég fjalla um Eignarhaldsfélagið Fasteign og gera grein fyrir bestu leiðinni fyrir Reykjanesbæ að mínu mati. Í milltíðinni hvet ég meirihluta hinnar nýju sýnar að hlusta betur en gamli meirihlutinn gerði. Fara beinu leiðina og falla frá fyrirhugðum launaskerðingum á hluta bæjarstarfsmanna.

Áfram Keflavík,
Margeir Vilhjálmsson
Klappstýra

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024