Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Barnið þitt nær árangri með samvinnu heimilis og skóla
Fimmtudagur 19. febrúar 2009 kl. 08:52

Barnið þitt nær árangri með samvinnu heimilis og skóla

Undanfarin ár hefur foreldrum á Suðurnesjum staðið til boða að sækja námskeiðið „SOS! Hjálp fyrir foreldra“ sér að kostnaðarlausu. Á námskeiðinu er kennt mikilvægi þess að grípa barnið gott með því að láta það vita af því þegar það hegðar sér vel. Því miður gerist það of oft að fullorðnir hafi eingöngu afskipti af börnum og unglingum þegar þau brjóta reglur og væntingar fullorðna fólksins, en eru látin afskiptalaus þar á milli. Rannsóknir hafa sýnt, þegar til langs tíma er litið, að refsingar skila sér ekki í jákvæðum breytingum á hegðun. Einnig sýna rannsóknir að refsingar auka líkur á agabrotum sem svo aftur eykur agabrot og upphefst refsihringur sem erfitt er að vinna sig úr. Með því að grípa nemandann góðan aukast líkur á því að nemandi sýni sömu  jákvæðu hegðun í framtíðinni og um leið dregið úr líkum á óæskilegri hegðun.

Hér í Reykjanesbæ hafa nokkrir skólar s.s. Njarðvíkur-, Holta- og Myllubakkaskóli, ákveðið að taka upp kerfi sem kallast „PBS, Heildstæður stuðningur við jákvæða hegðun“ og eru þeir komnir mislangt í innleiðingu þess. Þetta er rökrétt framhald af SOS-námskeiðunum í að samþætta skóla og heimili með það að leiðarljósi  að stuðla að jákvæðri hegðun barna okkar. Með heildstæðu kerfi er átt við að allt starfsfólk er samstíga í því hvernig hrósa beri nemanda og fyrir hvað. Einnig er þeim kennt að leiðrétta óæskilega hegðun.  Til að gera þetta kerfi enn skilvirkara er stuðst við skráningar á agabrotum til að hægt sé að gera átak í að auka jákvæða hegðun á vissum svæðum innan skólans.

Markmið PBS er að stuðla að bættum starfsháttum í skólunum með því að kenna starfsfólki að vinna út frá ákveðnum aðferðum. Þessar aðferðir byggja á sömu lögmálum og námskeiðið „SOS! Hjálp fyrir foreldra“ þ.e. grípum barnið gott. Fylgi nemendur ekki þeim reglum sem gilda er starfsfólki kennt að leiðrétta hegðun nemandans og kenna þeim reglurnar sem gilda á því svæði sem um ræðir í stað þess að notast við skammir. Þessar aðferðir auka samhæfni og árangur í skólunum, auk þess að bæta bekkjarstjórnun, stuðningsúrræði fyrir einstaka nemendur og samvinnu við foreldra allra barna. Hugtakið samfélagsleg ábyrgð hefur mikið verið notað að undanförnu sökum bankahrunsins. Ég tel aftur á móti að hugtakið eigi hvergi betur við en einmitt í sameiginlegu átaki skóla og heimila í uppeldi næstu kynslóðar. Ég vona að foreldrar taki vel á móti þessu kerfi og stuðli þannig að því að auka líkur á æskilegri hegðun, jákvæðum samskiptum og betra vinnuumhverfi, bæði fyrir nemendur og kennara.

Sigurður Þ. Þorsteinsson
Sálfræðingur
Fræðsluskrifstofa Reykjanesbæjar



Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024