Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Barin af buxnaherðatré!
Laugardagur 11. febrúar 2012 kl. 11:40

Barin af buxnaherðatré!



Við þurfum að minna okkur á það að þeir sem eru með gott sjálfstraust eru ekki góðir í öllu - heldur nýta þeir sér styrkleika sína, sætta sig við það sem þeir geta ekki breytt en stefna ótrauðir að því að bæta það sem þeir geta bætt. Sjálfstraust er alltaf í nútíð og því getur verið kippt undan manni við ólíklegustu aðstæður og því skiptir máli að æfa sig aftur og aftur í því hvernig maður nær í öryggið sitt, hvernig maður bregst við þegar aðstæður breytast snögglega og maður upplifir sig berskjaldaðan gagnvart umhverfinu. Við könnumst líklega flest við það að stundum viljum við bara falla inn í umhverfið og ekki láta bera á okkur - láta eins og við séum ósýnileg. Þá grípa örlögin stundum í taumana - þröngva manni í sviðsljósið óundirbúnum og þá reynir á, að bogna eða brosa!

Þetta gerðist fyrir u.þ.b. fimm árum en þá var yngri sonur minn 15 ára og við fórum saman í verslun í Kringlunni til að finna handa honum buxur. Áður en við förum þangað inn segir þessi elska ,,æ, mamma, ekki fara að spjalla geðveikt við alla í búðinni, eins og þú gerir stundum“.......Það kom mér gjörsamlega í opna skjöldu að sonur minn upplifði mig sem svona ,,svaka“ spjallara og ég hugsaði með mér að það væri eins gott að hann fór ekki með ömmu minni í búðir í gamla daga því hún spjallaði ekki bara heldur tók stjórnina. Ef henni fannst að eitthvað mætti betur fara þá benti hún ákveðin á það og afgreiðslufólkið fékk tiltal ,,heyrðu ungi maður.......unga kona........ég get nú bara látið þig vita að svona framkoma er hvorki þér né versluninni til sóma“. Hún stoppaði strætó á ferð, lét hleypa sér inn eða út eftir hentugleika og skammaði bílstjórana ef þeir keyrðu óvarlega. Amma mín var stórkostleg kona en þegar ég var unglingur fannst mér hún hafa full miklar skoðanir á allt og öllu og þar sem sonur minn var á viðkvæmum aldri ákvað ég að halda mig óvenju mikið til hlés í þessari búðarferð. Þannig breytti ég mér umsvifalaust í innhverfu týpuna sem læddist um búðina og lét soninn stjórna ferðinni. Síðan ákvað hann að fara að máta og við höfðum þann háttinn á að hann fór inn í búningsklefann og ég fór og náði í föt fyrir hann......sótti, skilaði, sótti, skilaði...allt í innhverfa gírnum.

En svo dró til tíðinda - sonur minn er inni í klefanum að máta buxur. Klefinn lítill – sonur minn tæplega 190 cm og plássið til að athafna sig ekki mikið. Ég ákvað því að vera tilbúin með buxurnar fyrir utan klefann því hitinn þar inni var í stíl við stærðina og minn maður orðinn pirraður að finna ekki það sem hann leitaði að. En þar sem ég stend og ætla að rykkja einum buxunum af herðatrénu fæ ég þetta svakalega högg í gagnaugað, svo mikið að ég öskraði hátt upp yfir mig svo fólki var brugðið og allir í búðinni frusu og horfðu á mig. Buxnatréið var á gormi og hafði verið þröngvað inn í buxnastrenginn og skaust svona út og í andlitið á mér þegar ég losaði það. Afgreiðslufólkið kom hlaupandi og ég stóð þarna með æðaslátt í eldrauðu gagnauganu sem bólgnaði eins og í teiknimyndunum. Frá þessari stundu snerist allt í búðinni um mig, leitað var að klökum til að kæla, eða átti kannski að setja kaldan hníf á kúluna til að hún stækkaði ekki meira, þurfti ég að setjast, leggjast eða fara upp á slysó! Við leystum þetta með kaldri áldollu af Sprite þar sem enginn var klakinn og slysó var óþarfi. Skaðinn var minni en óttast var um í fyrstu – konan var í lagi!
Sonur minn hafði auðvitað áhyggjur af móður sinni en óþægindin og athyglin sem þetta vakti, náði alveg nýjum hæðum og tók yfir allt annað. Hann flýtti sér að velja einar buxur og sagði ,,mamma, við skulum bara drífa okkur heim“. Þegar uppi var staðið var roði hans meiri en minn en þegar ég var búin að jafna mig fékk ég nett hláturskast í framsætinu á bílnum - sonur minn starði fram fyrir sig og hristi hausinn.

Sonur minn getur hlegið af þessu atviki með mér í dag enda hefur hann fullorðnast mikið á þessum árum og ekki eins viðkvæmur fyrir því sem öðrum finnst. Með aldrinum áttum við okkur flest á því að það borgar sig ekki að taka lífið of alvarlega og mikilvægt að hafa húmor fyrir sjálfum sér og aðstæðum. Við komum öll til með að gera okkur að fíflum eða opinbera ófullkomleika okkar á einn eða annan hátt einhvern tímann á ævinni og í mínu tilviki þá gerist það bara ansi oft. En það er bara allt í lagi því sá sem leitar eftir fullkomnun bíður sífellt ósigur og þroskar síður með sér gott sjálfstraust og jákvæða sjálfsmynd. Lífið er stutt - njótum þess alls, reynum að sjá spaugilegu hliðarnar á erfiðum og neyðarlegum aðstæðum - en ég bið ykkur samt að fara varlega næst þegar þið farið að versla buxur.

Lífið er ljúft, ég kann það að meta
því þrátt fyrir allt er svo gott að geta
notið þess alls er Guð okkur gaf
jafnt sólskin í heiði sem ólgandi haf
lærum lífsins veginn að feta!

Þangað til næst - gangi þér vel
Anna Lóa

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024