Baráttujaxlar í veðurofsa skammdegisins
Hulda María Einarsdóttir og Anna Sigríður Jóhannesdóttir skrifa.
Í anda liðinna mánaða er ekki úr vegi að ræða almenna líðan. Hversu mikil áhrif aðstæður hafa á geðheilsu manna og hvað hægt sé að gera til að takast á við þær.
Geðheilsa okkar er mikilvæg
Við erum of dugleg að setja sálina í biðstöðu á meðan að við sinnum öðrum hlutum. Margir leggja rækt við líkamlega heilsu en hvað er hún án góðrar geðheilsu? Góð geðheilsa er að vera sáttur í eigin skinni og upplifa ánægju, jafnvægi og öryggi í daglegu lífi. Slíkt ástand hefur áhrif á viðhorf og getu okkar til að takast á við álag og streitu. Geðheilsa snýst ekki bara um að vera laus við geðsjúkdóma heldur endurspeglast hún líka í sjálfsmati og samskiptum við aðra. Streita, veikindi, atvinnumissir, fjárhagserfiðleikar og aðrir utanaðkomandi þættir hafa áhrif á andlega líðan.
Skammdegi, veðurofsi, fjárhagsvandi og atvinnuleysi
Á erfiðum tímum er eðlilegt að finna fyrir vanmætti, depurð og kvíða. Slíkar tilfinningar eru eðlilegar við óeðlilegar aðstæður. Mikilvægt er að vera vakandi yfir eigin líðan og viðurkenna tilfinningar sínar. Engin tilfinning er réttari en önnur en til að festast ekki í ákveðnu fari er nauðsynlegt taka ábyrgð á eigin lífi og vera óhræddur við að leita sér hjálpar. Hugsanir hafa áhrif á líðan og hegðun og þar af leiðandi áhrif á hvernig við metum og túlkum aðstæður. Hægt er að hafa áhrif á eigin hugsanir með því að einblína á jákvæða hluti sem veita vellíðan. Mikilvægt er að gera greinarmun á þeim þáttum sem við getum stjórnað og þeim sem við höfum ekki stjórn á. Við höfum vald á eigin hugsunum en höfum til dæmis ekkert vald yfir veðrinu og efnahagslífinu. Við getum valið að hegða okkur eins og baráttujaxlar og snúið þannig vörn í sókn með réttu hugarfari. Baráttujaxlar líta á sig sem sigurvegara í erfiðum aðstæðum og klappa sér á bakið fyrir litlu sigrana. Enginn verður baráttujaxl á einni nóttu heldur eru þetta viðhorf sem við tileinkum okkur með endalausri sjálfsskoðun.
Hvernig hlúum við að geðheilsu okkar?
Við tryggjum okkur góðan svefn
Við borðum holla og fjölbreytta fæðu
Við stundum hreyfingu sem hentar okkur
Við hugsum jákvætt
Við eflum uppbyggjandi samskipti
Við finnum okkur vettvang til að ræða eigin líðan við aðra
Við hrósum sjálfum okkur og öðrum
Við stöndum með sjálfum okkur
Við slökum á og erum í núinu
Nú er mál að standa saman og styðja hvert annað. Sumardagurinn fyrsti á næsta leiti og ekki seinna vænna að finna sólina í hjarta sér.
Alveg kjörið að skella sér á sumarkaffi á Sumardaginn fyrsta 23. apríl í Björginni - Geðræktarmiðstöð Suðurnesja milli kl 13:00 og 16:00
Hulda María Einarsdóttir ráðgjafi í Björginni og sálfræðinemi
Anna Sigríður Jóhannesdóttir sálfræðinemi