Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Bara leikur
Sunnudagur 11. desember 2011 kl. 14:56

Bara leikur

Ómar Jóhannsson, markvörður og starfsmaður í Fríhöfninni sparkar pennanum fram á ritvöllinn.


Þjálfarinn minn fyrir nokkrum árum fékk einhvern tímann með sér ungan dreng til að aðstoða liðið, til dæmis að sjá um að brúsarnir okkar væru fullir af vatni þegar við vorum að spila leiki. Það var svo leikur í Reykjaneshöllinni sem við vorum að tapa (ótrúlegt en satt) og skammt til leiksloka. Einhver leikmaður á bekknum spurði þá hvort nokkur vissi hve mikið væri nákvæmlega eftir af leiknum. Bara 5 mínútur svaraði einn, frekar dapur í bragði þar sem vonin um að jafna var að verða veik. „Yes!“ heyrðist þá í félaganum sem sá um vatnið fyrir okkur og sat á enda bekkjarins spilandi hinn ódauðlega snake í símanum sínum, heldur betur ánægður með að þessi leiðindaleikur væri loks að verða búinn. Honum gat ekki verið meira sama um úrslitin.

Að deyja fyrir klúbbinn er frasi sem maður heyrir reglulega og finnst mér þetta fínasta slagorð. Vona að enginn taki þetta bókstaflega. Held að flestir með heilbrigða skynsemi átti sig alveg á því að það er verið að meina að leggja sig allan fram fyrir liðið sitt. Það er eitthvað sem ég mæli algjörlega með, að menn stundi sína íþrótt af heilum hug og gefi allt sitt á meðan þeir mögulega geta. Það eru miklar líkur á að þú sjáir eftir því síðar ef þú gerir það ekki. En menn verða líka að nálgast íþróttina af skynsemi.

Flestir hafa væntanlega byrjað að æfa einhverja íþrótt af því að þeim fannst það skemmtilegt. Í það minnsta haldið áfram að æfa vegna þess að þeim fannst það skemmtilegt. Áreiðanlega nokkrir strákar sem hafa byrjað í fótbolta vegna þess að pabbi vildi það eða fáeinar stelpur í ballett af því að mamma vildi það. Nú eða öfugt. Á endanum er þetta bara leikur. Það getur verið gott að muna það.

Þegar kappið er sem mest að vinna og ná árangri þá getur maður gleymt því að þetta er bara leikur. Það eru aðrir hlutir sem skipta meiru máli í lífinu, maður áttar sig á því smám saman þegar maður verður hundgamall eins og ég. Árangur í íþróttum eða einhverju öðru getur hins vegar verið alveg ótrúlega gefandi og skemmtilegur bónus. Því miður er maður stundum minntur á það af slæmum fréttum úr íþróttalífinu eða bara lífinu allmennt að íþróttir eru meira heldur en bara töp og sigrar. Þá er betra að hafa þreyttan vatnsbera sem lætur þig vita að úrslitin í fótboltaleik eru ekki aðalmálið.


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024