„Bara að það væri eitthvað að marka þetta fólk“
Bara að það væri eitthvað að marka þetta fólk, þeir lofa öllu fögru fyrir kosningar, svo ekki söguna meir”. Ég settist við hlið fullorðins manns, sem býr á dvalarheimili í Reykjanesbæ. Ekki áfallalaust líf sagði hann. „Maður á þó þrjú börn, sem komust öll sæmilega til manns, held ég. Já, barnabörnin, þau líta stundum við, en hanga mikið í þessum nýju símum, segja bara ekkert.” Hann brosti og bauð mér kaffi. „Ég er gamall en hef alltaf fylgst vel með bæjarpólitíkinni. Ef það væri nú hægt að leiðrétta öll mistökin sem blessaðir bæjarfulltrúarnir hafa gert. Ég man vel eftir því þegar hitaveitan var stofnuð, þetta var mikið framfaraskeið. Fjöregg okkar Suðurnesjamanna, sem færði okkur ódýrt heitt vatn. Hver hefði síðan trúað því að mönnum dytti í hug að selja þessa gullgæs okkar einhverjum útlendingum. Ég get ekki litið sjálfstæðismenn sömu augum eftir þetta. Seldu þeir ekki alla skólana líka? Hvernig er hægt að selja skóla”?
„Svo er það Helguvíkin. Ég fór út í kirkjugarð um jólin og sá þetta ferlíki þarna, þetta Kísilver. Minnti mig á borgina Murmansk í Rússlandi, ég kom einu sinni þangað, fyrir margt löngu. Þetta er svo nálægt byggðinni og miklu hærra en bærinn sagði að þetta ætti að vera. Fólk var bara platað. Svo bugtaði bæjarstjórnin sig og beygði fyrir þessum svokallaða athafnamanni, sem byggði þetta og átti að bjarga öllu. Bæjarstjórnin sem nú situr er ekkert betri en sjálfstæðismenn, samþykkti hún ekki annað kísilver þarna? Þeir þóttust ætla að leyfa fólki að kjósa um það, en svo var þetta svo flókið að enginn gat kosið. Var ekki verið að gera þetta flókið svo fólkið fengi ekki að ráða? Þeir sögðu fyrirfram að þeir ætluðu ekki að fara eftir kosningunni. Til hvers var þá verið að kjósa? Stundum held ég að þessir pólitíkusar haldi að við íbúarnir séum kjánar. Ég er gamall en veit nú ýmislegt og ég sé þegar fólk kemur ekki heiðarlega fram”.
„Eitt skal ég ráðleggja þér góða mín af því að þú ert nú að bjóða þig fram. Treystu þínu eigin hyggjuviti, engu öðru. Vertu heiðarleg og láttu ekki ráðskast með þig á nokkurn hátt. Ef þú kemst í bæjarstjórn, mundu þá að þú ert þar fyrir fólkið og gleymdu ekki að spyrja íbúana hvað þeim finnst”. Almenningur er nefnilega oft á tíðum skynsamari heldur en pólitíkusar. Gangi þér vel.”
Þetta spjall mitt við gamla manninn veitti mér innblástur. Ég ákvað að deila því hér í aðdraganda kosninga, vegna þess að í því fellst mikill sannleikur og brýn ábending til allra þeirra sem bjóða sig fram til ábyrgðarstarfa fyrir íbúa Reykjanesbæjar.
Miðflokkurinn kemur nýr til leiks fyrir þessar bæjarstjórnarkosningar. Við höfum á að skipa nýju fólki á þessum vettvangi með nýjar hugmyndir en um leið erum við opin fyrir öllum góðum hugmyndum, hvaðan sem þær koma. Við leggjum áherslu á samráð við íbúana, vinnusemi, heiðarleika og staðfestu í okkar störfum. Við viljum móta framtíð Reykjanesbæjar með þér. X-M
Margrét Þórarinsdóttir,
oddviti Miðflokksins í Reykjanesbæ.