Bætt heilbrigðisþjónusta á Suðurnesjum er forgangsmál
Það þarf innspýtingu í íslenskt heilbrigðiskerfi sem hefur verið í fjárhagslegu svelti síðustu árin. Sérstaklega þarf að huga að sjúkrastofnunum á landsbyggðinni og það sjáum við í Suðurkjördæmi. Það er sama hvort farið er til Reykjanesbæjar, á Selfoss eða til Vestmannaeyja, alls staðar talar fólk um það sama. Heilbrigðisþjónustan er ekki nógu góð og það góða starfsfólk sem þar starfar þarf að sætta sig við starfsaðstæður sem eru nánast ómanneskjulegar. Í ofanálag hefur álag á sjúkraflutninga aukist þannig að í óefni er komið bæði á Suðurnesjum og á Suðurlandi.
Þessu þarf að breyta og það vill Samfylkingin gera með því að efla umrædd sjúkrahús, byggja upp heilsugæsluna og styrkja sjúkraflutningana. Það frábæra er að það eru til fjármunir í íslensku samfélagi til að ráðast í þessi mikilvægu verkefni. Með útboði aflaheimilda til þeirra sem nýta sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar fær ríkissjóður nægjar tekjur til að standa undir nauðsynlegri uppbyggingu heilbrigðiskerfisins sem nýtist öllum.
Nú á fimmtudaginn 27. október kl. 17:00 verður haldinn fundur í kosningamiðstöð Samfylkingarinnar að Hafnargötu 19 í Reykjanesbæ þar sem hjúkrunarfræðingarnir Guðný Birna og Jón Garðar fara yfir þær leiðir sem eru færar til að efla Heilbrigðisstofnun Suðurnejsa og tryggja öllum greiðan aðgang að heilsugæslunni. Ég hvet fólk til að fjölmenna á fundinn því bætt heilbrigðisþjónusta á Suðurnesjum er forgangsmál okkar allra.
Ólafur Þór Ólafsson
skipar 2. sæti á lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi