Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Bæjarstjórn og SSS láta gabbast
Þorvaldur Örn Árnason.
Fimmtudagur 23. nóvember 2017 kl. 05:00

Bæjarstjórn og SSS láta gabbast

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkti samhljóða svohljóðandi bókun á fundi 7. nóv. sl.:
„Í kjölfar bilunar í flutningskerfi Landsnets sunnudagskvöldið 5. nóv. sl. ítrekar bæjarstjórn Reykjanesbæjar bókun sem gerð var á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum 2016 en þar var skorað á ráðherra að beita sér fyrir öryggi í raforkumálum á Suðurnesjum. Mikilvægt er að Suðurnesjalína 2 verði reist sem fyrst. Flutningsgeta núverandi línu er fullnýtt og hamlar núverandi kerfi uppbyggingu á svæðinu. Suðurnesjalína 1 er eina tenging Reykjanesskagans við meginflutningskerfi Landsnets og hafa bilanir á henni valdið straumleysi. Það er ekki ásættanlegt m.a. með tilliti til þess að eini alþjóðaflugvöllur landsins er staðsettur á Suðurnesjum. Mikið álag veldur enn frekari hættu á truflunum á raforkuflutningum, sem og getur valdið tjóni hjá notendum. Það er brýnt hagsmunamál íbúa og atvinnulífs á Reykjanesi að flutningskerfi raforku verði styrkt sem fyrst.“

Landsnet hefur lengi stefnt að því að reisa risastóra 220 kV háspennulínu til Suðurnesja, sem nefnd er Suðurnesjalína 2. Þessi lína var hönnuð þegar til stóð að reisa álver í Helguvík sem þyrfti 600 MW af rafmagni. Nú er fallið frá því að byggja þetta álver, enda vandfundin öll sú raforka sem til þess þyrfti. Svo er heldur ekki bætandi á mengunina frá Helguvík.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Landsnet heldur því fram að lína þessi sé nauðsynleg óháð því hvort af álverinu verði því núverandi 130 kV lína sé fullnýtt og anni ekki raforkuflutningnum til Suðunesja og ástandið versni með aukinni raforkunotkun hér. Það er rangt og hlýtur að vera meðvituð lygi af hálfu Landsnets. Línan er ekki fullnýtt og hamlar ekki uppbyggingu á svæðinu. Núverandi lína flytur raforku FRÁ Suðurnesjum, ekki til Suðurnesja. Virkjanirnar á Reykjanesi og í Svartsengi framleiða nefnilega meira rafmagn en notað er á Suðurnesjum og flytur línan umframorkuna til höfuðborgarsvæðisins og stóriðju á Grundartanga. Línan getur flutt talsvert meiri orku en hún gerir nú og fer flutningsþörfin minnkandi eftir því sem raforkunotkun vex á Suðurnesjum með stækkandi byggð, gagnaverum og jafnvel kísilverum.

Það er hins vegar rétt að meira öryggi fælist í því að tengja Suðurnes og höfuðborgarsvæði með tveimur háspennulínum en einni. Heppilegasta leiðin til að auka verulega öryggið væri að leggja jarðstreng í stað loftlínu. Jarðstrengir þola eldingar eins og urðu um daginn og fjúkandi járnplötur trufla þá ekki eins og gerðist um árið. Jarðstrengurinn þyrfti ekki að vera á hærri spennu en núverandi lina, 120 kW, og slíkir jarðstrengir eru í dag á svipuðu verði og loftlínur.

Landsnet hefur í meira en áratug streðað við að fá tilskilin leyfi fyrir loftlínunni stóru en ekki fengið og tapað nokkrum dómsmálum gegn landeigendum sem vilja ekki loftlínu gegnum land sitt. Engin slík fyrirstaða er gegn jarðstreng og í aðalskipulagi Sveitarfélagsins Voga hefur verið gert ráð fyrir jarðstreng frá árinu 2008. Jarðstrengur gæti verið kominn ef Landsnet hefði valið þá augljósu leið.
Það er leitt þegar bæjarstjórnir og samband sveitarfélaga láta blekkjast af einhliða áróðri og fjölmiðlar birta án athugasemda samþykktir sem enginn fótur er fyrir.

Þorvaldur Örn Árnason, íbúi í Vogum