Bæjarstjórabúgí
Kolbrún Jóna Pétursdóttir skrifar.
Það virðist sem stefna Beinnar leiðar um að ráða bæjarstjóra, og láta gera faglega úttekt á rekstri sveitarfélagsins með það að markmiði að hagræða, standi í fólki og langar mig því að benda á nokkur atriði varðandi þetta.
Bein leið stefnir ekki á að láta tilvonandi bæjarstjóra gera faglega úttekt til að hagræða í rekstri heldur fá til þess aðila sem eru sérhæfðir í því og hafa komið að endurskipulagningu fyrirtækja og sveitarfélaga. Þetta er ekki nýtt fyrirbæri og hefur verið notað um áraraðir og m.a. í bæjarfélögum hér á Suðurnesjum. Úttektin yrði svo leiðarvísir fyrir bæjarstjórn Reykjanesbæjar og bæjarstjóra.
Þá er það markmið okkar að auglýsa opinberlega og ALLIR sem uppfylla uppgefin skilyrði geta sótt um.
Ég hef engar áhyggjur af því að úttektin verði á skjön við markmið og stefnu framboðsins. Þetta snýst um nauðsyn þess að hagræða í rekstrinum og að sjálfsögðu þarf að finna meðalveginn í því eins og öðru.
Sveitarstjórnarmenn eiga að vera þverskurður af bæjarbúum, en eru ekki í dag og munu ekki verða eftir næstu kosningar sérfræðingar í öllu sem þarf að takast á við. Það er ekkert svart/hvítt í þessu eins og margir virðist halda og mín trú er sú að það sé vel hægt að hagræða með skynsömum hætti þegar tekjur sveitarfélagsins eru svona um það bil níu þúsund milljónir.
Það má heldur ekki gleyma því að það er ekki bundið í lög að bæjarstjóri sé kjörinn fulltrúi í sveitarstjórn, með atkvæðisrétt þar, heldur eins og í venjulegu fyrirtæki þá vinnur hann fyrir sveitarstjórn, fer með daglegan rekstur en eins og í venjulegum hlutafélögum fer stjórnin með allar meiriháttar ákvarðanir og skuldbindingar.
Þessi hræðsla við að ráða bæjarstjóra í Reykjanesbæ er samt nokkuð merkileg í ljósi þess að 66 sveitarfélög eru með ráðinn framkvæmdastjóra en í átta sveitarfélögum sér oddviti sveitarstjórnar um framkvæmdarstjórn sveitarfélagsins. Einhver ástæða hlýtur nú að liggja að baki ákvörðun þeirra 66 sveitarfélaga sem hafa ákveðið að fara þessa leið!!
Kolbrún Jóna Pétursdóttir
í framboði fyrir Beina leið