Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

  • Bæjarstjóra svarað - Breytt afstaða Reykjanesbæjar hægir á Helguvík
  • Bæjarstjóra svarað - Breytt afstaða Reykjanesbæjar hægir á Helguvík
Fimmtudagur 2. júlí 2015 kl. 14:51

Bæjarstjóra svarað - Breytt afstaða Reykjanesbæjar hægir á Helguvík

Í aðsendri grein á vef Víkurfrétta heldur Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, því fram að það ríki óvissa um stuðning ríkisins við innviðauppbyggingu í Helguvíkurhöfn og að fundir með þingmönnum og ráðherrum vegna málsins hafi ekki skilað árangri.

Við þetta er ástæða til að gera athugasemdir. Fyrr í vor var vinna komin langt í mínu ráðuneyti við undirbúning frumvarps um sérlög fyrir Helguvíkurhöfn. Þar var áformað að höfnin myndi njóta sambærilegs stuðnings og aðrar iðnaðarhafnir landsins hafa notið af hálfu ríkisins við sambærilegar aðstæður. Var þessi vinna unnin í góðu samstarfi ráðuneytisins og Reykjanesbæjar.

Hún hófst í upphafi árs 2014 með samantekt ítarlegrar greinargerðar, sem m.a. fólst í samanburði á aðkomu ríkisins að sambærilegum verkefnum, þ.m.t. á Grundartanga, við Reyðarfjörð og á Bakka við Húsavík.
Að lokinni þeirri vinnu og á grundvelli niðurstöðu hennar fór ég með  minnisblað fyrir ríkisstjórn í lok síðasta árs þar sem lagt var til að unnið yrði að frumvarpi til sérstakra laga um uppbyggingu innviða í Helguvík. Þetta var einnig í samræmi við stefnumótandi byggðaáætlun sem þá hafði verið samþykkt á Alþingi. Vinna við frumvarp hófst og áætlað var að leggja það fyrir þingið á vorþingi, eða í síðasta lagi næsta haust.
Í febrúar þessa árs ljáði Reykjanesbær fyrst máls á breyttri aðkomu ríkisins. Að fallið yrði frá sérlögum og að uppbygging hafnarinnar færi þess í stað í gegnum samgönguáætlun og var það í framhaldi af breytingu sem gerð var á hafnalögum í desember 2014.

Þessi breyting var staðfest og formgerð með bréfi Reykjanesbæjar til mín og innanríkisráðherra þann 29. maí síðastliðinn, þar sem einnig var óskað eftir fundi til að ræða framhald málsins. Sá fundur fór fram tveimur dögum síðar, þann 1. júní. Þar ítrekaði bæjarstjóri þessa ósk og málinu var þannig formlega komið í þann feril sem Reykjanesbær óskaði eftir.

Það er því hvorki rétt né sanngjarnt að bæjarstjóri Reykjanesbæjar haldi því fram, innan við mánuði síðar, að óvissa ríki um aðkomu ríkisins og að þingmenn og ráðherrar séu sakaðir um að draga lappirnar. Ég fullyrði að allir þingmenn Suðurkjördæmis, hvar í flokki sem þeir standa, hafa fullan skilning á stöðu mála í Helguvík og vilja til að sjá þau mál leysast farsællega.
Við ráðherrar og þingmenn Suðurkjördæmis höfum starfað af heilindum að málefnum Helguvíkurhafnar og munum halda því áfram. Ég vona innilega að hið sama gildi um ráðamenn í Reykjanesbæ því einungis þannig munum við tryggja farsæla niðurstöðu í þessu mikilvæga máli.


Ragnheiður Elín Árnadóttir
iðnaðar- og viðskiptaráðherra

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024