B listi uppfyllti ekki skilyrði fyrir framboð

Stjórn trúnaðarráð Verslunarmannafélags Suðurnesja hefur gefið frá sér yfirlýsingu vegna bréfs sem forsvarsmenn B lista sendu frá sér þann 22. mars sl., um að stjórn og trúnaðarráð VS myndu framlengja skilafrest framboða til kjörs stjórnar og trúnaðarráðs félagsins.

„Samkvæmt ákvörðun stjórnar og trúnaðarráðs frá 5. febrúar var samþykkt að viðhafa allsherjaratkvæðagreiðslu við kjör stjórnar og trúnaðarráðs sbr. 11. gr laga félagsins, en þar kemur jafnframt fram að um framkvæmd kosninga skuli fara  eftir reglum ASÍ.  Auglýst var eftir framboðum og bárust tveir listar sem merktir voru A listi stjórnar og trúnaðarráðs og B listi, “ segir í yfirlýsingunni.

Í yfirlýsingunni kemur einni fram að B listi hafi ekki uppfyllt, að mati kjörstjórnar, þau skilyrði sem sett voru fyrir framboði og úrskurðaði kjörstjórn að einungis einn listi væri löglega fram borinn A listi, og þeir sem á þeim lista voru rétt kjörnir til trúnaðarstarfa fyrir félagið en í fundargerð kjörstjórnar frá 19. mars 2018 segir:
“Einungis eitt framboð var löglega framkomið, A- listi stjórnar og trúnaðarráðs og er hann því sjálfkjörinn. „ Kosningum er því lokið samkvæmt lögum félagsins.

Í bréfinu frá 22. mars sl. segir að vegna skorts á leiðbeiningum og nánari upplýsingum um framkvæmd og útlit framboðsgagna sé óskað eftir að nýr frestur verði gefinn til að koma að framboðslista.
„Stjórn og trúnaðarráð kannast ekki við að óskað hafi verið eftir neinum upplýsingum eða leiðbeiningum frá skrifstofu félagsins um hvaða kröfur þyrfti að uppfylla til að framboð teldist lögmætt. Ekki verður því séð að framboð B lista byggðist á ónógum eða villandi upplýsingum frá skrifstofu félagsins.
Stjórn og trúnaðarráð lítur svo á að kosningum sé lokið með úrskurði kjörstjórnar.  Hvergi er að finna í lögum félagsins heimild til að boða til nýrra kosninga eða framlengja framboðsfrest eftir að kosningum er lokið.
Stjórn og trúnaðarráð getur því ekki orðið við þeirri beiðni sem fram kemur í framlögðu bréfi.“

Varðandi ósk um félagsfund þá þarf a.m.k. undirskriftir 50 fullgildra félagsmanna til að óska eftir fundi.  Með framlögðu bréfi var lagður fram listi 52 nafna en við skoðun eru einungis 48 þeirra fullgildir félagsmenn.  Beiðnin uppfyllir því ekki skilyrði 19. gr. laga félagsins, segir í yfirlýsingu A lista stjórnar og trúnaðarráðs.