Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Auðlindir og atvinna
Fimmtudagur 23. apríl 2009 kl. 14:59

Auðlindir og atvinna

Þúsundir fjölskyldna ramba nú á barmi gjaldþrots þar sem efnahagsástandið og aðgerðarleysi síðustu tveggja ríkisstjórna hafa kippt undan þeim fótunum. Fjölskyldur sem keyptu sér íbúðarhúsnæði og höfðu allar forsendur fyrir að ráða vel við greiðslubyrðina, jafnvel þótt eitthvað kæmi upp á. Þeim forsendum sem fjölskyldurnar og bankarnir gáfu sér þegar lánin voru tekin, hefur nú verið breytt einhliða. Stefna ríkisstjórnarinnar er þó að aðeins annar aðilinn skuli bera allan skaðann af þessum forsendubresti og það eru fjölskyldurnar í landinu.

En það er ekki allt. Ofan á okurvexti og óðaverðbólgu bætist nú sívaxandi atvinnuleysi. Ekki er nóg með að fjölskyldurnar þurfi að standa undir greiðslubyrði sem í mörgum tilfellum er tvöfalt hærri en svartsýnustu spár gerðu ráð fyrir, heldur standa þær margar frammi fyrir því að hafa misst aðra eða jafnvel báðar fyrirvinnur sínar vegna atvinnuleysisins. Óvíða er ástandið verra en einmitt á Suðurnesjum.

Núverandi ríkisstjórn hefur því miður brugðist. Á meðan meirihluti þingmanna lagði allt kapp á að koma framkvæmdum af stað við Helguvík og tryggja þannig þúsundum Suðurnesjamanna störf, hefur þingmaður Suðurkjördæmis, Atli Gíslason, barist af mikilli hörku gegn atvinnuuppbyggingu á Suðurlandi og Suðurnesjum. Hann reyndi, ásamt Álfheiði Ingadóttur, að koma í veg fyrir að fjárfestingasamningur vegna álvers í Helguvík færi í gegnum þingið fyrir kosningar. Þá hefur hann unnið markvisst gegn frekari nýtingu orku í Suðurkjördæmi og svo virðist sem Vinstri Grænir séu almennt á móti nýtingu auðlinda landsins ef marka má orð umhverfisráðherra, Kolbrúnar Halldórsdóttur.

Framsóknarmenn hafa ávallt lagt áherslu á að nýta beri orku landsins á skynsamlegan hátt. Af henni eigum við nóg hér í Suðurkjördæmi. Ekki er síður mikilvægt að nýta orkuna í kjördæminu og því þarf að huga að uppbyggingu orkufreks iðnaðar á borð við álver, gagnaver, ylrækt og fleira.

Við viljum veita fjölskyldum á Suðurnesjum von. Von um að til sé leið út úr kreppunni sem ekki felur í sér skuldafangelsi, fjöldagjaldþrot eða landflótta. Við viljum leiðrétta skuldastöðu heimilanna um 20% og tryggja atvinnu með virkjun orku og uppbyggingu iðnaðar sem nýtir þá orku. Aðeins þannig getum við horft fram á veginn og byrjað að byggja hið Nýja Ísland.

Eygló Harðardóttir er í 2. sæti á lista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024