Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Atvinnustefna Samfylkingar og Vinstri Grænna: Hvert er stefnt?
Föstudagur 12. júní 2009 kl. 14:56

Atvinnustefna Samfylkingar og Vinstri Grænna: Hvert er stefnt?

Á þeim rúmlega 4 mánuðum sem ríkisstjórnir Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs hafa starfað, er fátt nýtt sem komið hefur í ljós í atvinnumálastefnu flokkanna tveggja. Þrátt fyrir að hafa farið í gegnum kosningar og útbúið samstarfsyfirlýsingu er ekki auðhlaupið að sjá hvert ríkisstjórnin stefnir í atvinnumálum.  Það vantar reyndar ekki fagurgalann í samstarfsyfirlýsinguna sem og samhljóða texta í stefnuræðu forsætisráðherra við upphaf sumarþings. „ríkisstjórnin mun beita sér fyrir að mótuð verði heildstæð atvinnustefna fyrir Ísland“ og „Ríkisstjórnin mun efna til víðtæks samráðs ...  um sóknaráætlanir fyrir alla landshluta“ (leturbreytingar SIJ). Það vantar sem sagt ekki áætlanirnar eða áformin um að móta stefnu. En minna hefur sést til raunverulegra verka. Ákvarðana sem leiða til nýrra starfa eða fjölgunar þeirra sem fyrir eru. Auðvitað er vandinn stór og skortur á fjármagni hamlar mörgum góðum hugmyndum að komast á framkvæmdastig. Það hafa reyndar komið fram hugmyndir um hvernig megi fjármagna ný verkefni. Í því sambandi má nefna eina af tillögum okkar Framsóknarmanna frá því í febrúar síðastliðnum um að lífeyrissjóðirnir fjármagni t.d. byggingu Búðarhálsvirkjunar eða aðrar þær framkvæmdir sem standa að lágmarki undir langtíma arðsemiskröfu lífeyrissjóðanna. Annað hvort hefur ríkisstjórnin ekki hlustað eða málin eru enn í áætlanagerð, stefnumótun eða markmiðssetningu.

Því miður hafa ríkisstjórnarflokkarnir ekki notað þessa 4 mánuði til að fara í efnahagsmálin, né heldur unnið lausnum í ríkisfjármálum. Ekki heldur komið fram með tillögur að endurreisn bankanna eða um hagræðingu og niðurskurð hjá ríkinu. Raunverulegar varnir fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu vantar einnig. Niðurstaðan eru skelfilegir okurvextir, himinháir stýrivextir og stöðugt gengissig svo jaðrar við gengishrun. Afleiðing þess er að atvinnulífið er stopp. Enginn getur, eða þorir að leggja út í nýframkvæmdir. Enn er öllum sagt (eins og síðustu 4-5 mánuði) að lokið verði við að fjármagna bankanna í næsta mánuði. Það er vonandi að svo verði.

Í kjölfarið er síðan nauðsynlegt að heyra nýjan tón frá ríkisstjórninni. Að sjá framtíðarsýn um betri tíma og hugmyndir um atvinnuuppbyggingu. Að geta séð einhver merki um bjartsýni hjá ríkisstjórninni - að ég tali nú ekki um að slík bjartsýni smitist til fólksins í landinu. Það er nauðsynlegt að ríkisstjórnin tali einu máli og sé samstiga í slíkum málum. Við höfum ekki efni á að horfa upp á atvinnutækifærin gufa upp eða glutrast niður vegna þess að stjórnarráðherrar tali hver í sína áttina. Við höfum ekki efni á að sjá aftur, afgreiðslu þáverandi umhverfisráðherra Samfylkingarinnar, senda 500 störf kísilflöguverksmiðjunnar sem rísa átti í Þorlákshöfn til Kanada vegna þess að ekki var hægt að segja hvort umhverfismat tæki 1-2 eða 3 ár. Við höfum ekki efni á að horfa uppá misvísandi yfirlýsingar ráðherra um uppbyggingu í Helguvík. Við höfum ekki ráð á að sumir ráðherrar setji fótinn fyrir uppbyggingu á Bakka við Húsavík á meðan heimaaðilar reyna að halda ótrauðir áfram.  Síðasta tilfellið af uppákomum, um ,,raunverulegan“ áhuga Samfylkingar og VG á atvinnuuppbyggingu, sem við höfum ekki ráð á, er þegar núverandi umhverfisráðherra VG( og hennar undirstofnun) kemur í veg fyrir með töfum, að hægt verði að uppskera erfðabætt korn hjá nýsköpunarfyrirtækinu ORF í Gunnarsholti á þessu ári. Og það þrátt fyrir að vísindasamfélagið hefði samþykkt það. Þrátt fyrir að gríðarleg sóknarfæri séu í þessari hátækni nýsköpun, verðmæt þekkingarstörf og útflutningsafurðir og þar með gjaldeyrir.

Við höfum ekki efni á að hafa ríkisstjórn sem talar í atvinnumálum út og suður - norður og niður. Við þurfum ríkisstjórn sem er tilbúin að standa einhuga að baki atvinnuuppbyggingu í landinu. Ríkisstjórn sem ræðst að krafti, áræðni og þekkingu í efnahagsmálin, peningastefnuna og ríkisfjármálin. Við þurfum ríkisstjórn sem með störfum sínum, eykur bjartsýni og þor – lækkar vexti og styrkir gengi – vinnur markvisst og einhuga að uppbyggingu atvinnutækifæra. Þannig ríkisstjórn þurfum við. Þannig ríkisstjórn höfum við ekki – því miður. Íslenska þjóðin verður að geta treyst því að barist sé fyrir atvinnuuppbyggingu í þessu landi. Þess vegna mun Framsóknarflokkurinn halda áfram að vinna að uppbyggingu atvinnulífs.

Sigurður Ingi Jóhannsson,
alþingismaður


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024