Atvinnurógur um atvinnumál
Það er gamalkunnugt og ljótt trix í pólitík að kasta fram rætnum fullyrðingum um fólk og láta því eftir að elta þær uppi og svara. Láta fólk neita. Þessu er oft beitt þegar fólk eða flokkar eru í þröngri stöðu og vilja beina athygli að öðru.
Illgirnisbragð þetta kemur upp í hugann þegar litið er til framöngu nokkurra forystumanna sjálfstæðismanna á Suðurnesjum gagnvart Oddnýju G. Harðardóttur þingmanni undanfarnar vikur. Síðast nú í dag.
Því sem ekki er hægt að kalla annað en atvinnuróg á hendur þingmanni sem hefur atvinnu af því að vinna sínu kjördæmi og landinu öllu gagn, er dreift einsog mykju úr dreifara að „enn sitji Oddný hjá við atvinnumál á Suðurnesjum.“ Sífellt er látið í veðri vaka að ekki sé mikið gagn í henni fyrir Suðurnesin. Flest það sem ekki gekk fram er semsagt meira og minna henni að kenna að mati flokksbræðranna. Það eru skilaboðin sem sett eru fram í greinum þessum og umræðu þeim tengdum.
Ósvífnara verður stjórnmála atið ekki eða ósannara en þetta. Tilgangum er hinsvegar sjálfsagt náð á meðan dylgjurnar eru ekki barðar til baka. Það skal hér gert og hafi höfundar skammir fyrir ljótan leik.
Undanfarin þrjú ár hef ég notið þeirra forréttinda að vinna með Oddnýju í stjórnmálum. Hún er póltísk og persónuleg prýðismanneskja sem vinnur betur og ötular að hagsmunum sinnar heimabyggðar en flestir aðrir. Að halda öðru fram er hreinn atvinnurógur. Rógur sem beinist að því að koma þeim ósannindum að hjá almenningi að lítið liggi nú eftir viðkomandi þingmann annað en fyrirstöður við brýn mál, þegar hið öndverða er rétt.
Lítum á nokkur dæmi. Þrír fjárfestingarsamningar um orkunýtingu á Suðurnesjum á sama tíma og færri en það hafa verið gerðir á landinu öllu annarsstaðar. Verkefnin eru; álverið í Helguvík, kísilverksmiðja í Helguvík og gagnaver Verne á Vallarheiðinni. Allt stórframkvæmdir sem munu fara á hástig á næstunni, gangi áætlanir eftir.
Ákvörðun um að allir umsækjendur í framhaldsskóla upp að 25 ára aldri fá þar vist. Þetta brýna mál var sérstakt baráttumál fjárlaganefndar undir forystu Oddnýjar, og hvergi er meiri þörf á en á Suðurnesjum vegna aðsóknar í FS.
Margt annað má telja til. Sérstaklega er vert að nefna ákvörðun um aukið fjárframlag til Keilis. Frumkvæði og aðkoma Oddnýjar að þeirri ákvörðun er vel skjalfest í grein skólameistara Keilis, Hjálmars Árnasonar, í Víkurfréttum í maí þar sem hann þakkar Oddnýju m.a. fyrir framgönguna í þessu mikilvæga máli.
Til gamans má geta þess að ég kynntist Oddnýju fyrir alvöru fyrst þegar við vorum bæði í hópi sem tók fyrstu skóflustunguna að álverinu í Helguvík í byrjun júní 2008. Síðan hefur eitt og annað orðið til að tefja fyrir þeirri brýnu framkvæmd, því miður. Svo sem sala sveitarfélaganna á HS orku og þar með yfirráðin yfir orkusölu þess. Svo ekki sé nú minnst á mikla erfiðleika Orkuveitu Reykjavíkur sem slógu virkjun Hverahlíðar á frest um a.m.k. nokkra mánuði.
Sú deila sem af eigendaskiptum HS orku hlaust er nú fyrir gerðardómi í Svíþjóð. Vonandi leysist deilan sem nýjir eigendur HS orku og Norðurál eiga í við mánaðarlok þegar dómur fellur.
Eftir stendur að margir sem hæst hafa ættu frekar að líta sér nær þegar kemur að atburðarás þeirra verkefna sem hafa tafist eða ekki gengið fram í stað þess að draga í efa heilindi og framgöngu þess þingmans svæðisins sem vinnur ötullega að framgöngu mikilvægra verkefna sem munu snúa vörn svæðisins í sókn þegar upp er staðið.
Eitt að lokum; sameinumst nú um að berjast fyrir öflugri atvinnusköpun á Suðurnesjum í stað þess að eyða orku og tíma í einskisverðan umkenningarleik sem engu skilar nema eitraðra andrúmi og er nóg um fyrir. Tækifærin eru fjöldamörg. Einhver kunna að festast á hugmyndastigi en mörg munu ganga fram og skila okkur ábata og atvinnu til langrar framtíðar.
Björgvin G. Sigurðsson, 1. þingmaður Suðurkjördæmis.